Körfuboltahreyfingin hefur verið í fararbroddi innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi undanfarinn áratug eða tvo, hvað varðar ýmis atriði tengd umgjörð leikja og þjónustu við áhugamenn. Má þar fyrst nefna ítarlega skráningu tölfræðiupplýsinga en einnig „Live Stat“ -ið og beinar útsendingar leikja á Netinu sem nokkur lið bjóða upp á, og sum með framúrskarandi gæðum. Allt þetta er hreyfingunni til mikils sóma og hefur tvímælalaust lyft íþróttinni á hærra plan.
Tölfræðiskráningin er reyndar orðin svo snar þáttur af öllu saman að óhugsandi væri að halda hér Íslandsmót án hennar. Öll umræða um körfuboltann, og almennur skilningur á þessari fögru íþrótt, er nú á allt öðru og æðra stigi en áður var, þökk sé tölfræðinni. Í „gamla daga“ var látið nægja að segja frá gangi leiksins, hálfleikstölum, úrslitum og gera að lokum grein fyrir stigaskorinu. Þegar undirritaður lék í efstu deild á 9. áratug síðustu aldar var þetta meginreglan. Þá drakk maður samt í sig alla umfjöllun, þó hún væri ekki byggð á tölfræðilegum vísindum, og rétt hægt að ímynda sér þá byltingu sem orðið hefur síðan.
Þó var á þeim tíma aðeins farið að velta vöngum yfir fleiri þáttum en stigaskori – sérstaklega minnisstæð er undirrituðum t.d. fyrirsögn í DV: „Skotnýting Gylfa hreint ótrúleg“ (ég hef auðvitað lifað á þessu síðan!). Í greininni er fullyrt að nýtingin hafi verið 75%, en hins vegar er þess í engu getið að Pétur Guðmundsson hafi átt heiðurinn að stórum hluta þeirra 40 stiga sem lágu í viðkomandi leik, milli ÍR og ÍBK 21. febrúar 1984, með sínum frábæru stoðsendingum sem voru stór þáttur af hans leik, en ekki metinn að verðleikum af því tölfræðiskráningu var ekki til að dreifa. Í annarri blaðagrein frá svipuðum tíma er þess getið að Pétur hafi tekið 20 fráköst í einum leiknum, og þótti tíðindum sæta sem von var. Hver taldi veit ég ekki. Samkvæmt vef KKÍ voru feilskot í öðru en vítaskotum ekki skráð formlega fyrr en 1988-1989, svo þessar upplýsingar byggja væntanlega á eigin rannsóknum blaðamannanna?
Þegar t.d. ferill undirritaðs í úrvalsdeild frá 1980-1987 er skoðaður í tölfræðisafni KKÍ er tómlegt um að litast: upplýsingarnar eru unnar upp úr leikskýrslum, fjöldi leikja, fjöldi heppnaðra skota, fjöldi víta, vítanýting og villufjöldi. Meira er það ekki. Allt annað verðum við, þessir gömlu, að varðveita í stopulu minni um „hina gömlu dýrðardaga“ (sem tölfræðibankinn að vísu þegir um þunnu hljóði í mínu tilviki!).
Nú eru sem betur fer aðrir tímar og hægt að liggja yfir aðskiljanlegustu þáttum leiksins og frammistöðu leikmanna frá mörgum hliðum. Ég trúi því að leikmenn nú til dags fylgist af engu minni áhuga með eigin tölfræði og annarra en við fylgdumst með skrifum blaðamanna, en í þá daga voru íþróttasíðurnar almennilegar, með ítarlegum, löngum greinum um hvern einasta leik í fjórum dagblöðum: Mogganum, Þjóðviljanum, DV og Tímanum. Nú eru prentmiðlarnir hvorki fugl né fiskur, einhverjir hliðardálkar með úrslitum og stigaskori, en karfan.is hefur tekið við og heldur uppi merkinu af alkunnum metnaði.
Tölfræðin er ekki bara lykillinn að vitrænni umræðu um körfuboltann. Hún er líka grunnurinn að mati á frammistöðu og gæðum leikmanna. Þeir eru verðlaunaðir fyrir að skara fram úr í einstökum tölfræðiþáttum, þjálfarar byggja undirbúning sinn fyrir leiki á tölfræðiupplýsingum um andstæðingana og leikmenn nota tölfræðina til að „verðleggja“ sig: þar kemur fram, svart á hvítu, hverju búast má við af viðkomandi, því „tölfræðin lýgur ekki“!
Og þá er loksins komið að inntaki þessara skrifa. Lýgur tölfræðin ekki? Tölfræðibankinn er eins og önnur mannanna verk, ófullkominn. Hann er aðeins jafn traustur og grunnurinn sem hann byggir á. Hann stendur og fellur með þeim sem skráir niður upplýsingarnar.
Því miður er það augljóst að grunnurinn undir tölfræðibanka KKÍ er mjög ótraustur, alla vega um þessar mundir. Það þarf ekki annað en að renna yfir tölfræðiskráningu nokkurra leikja inni á vef KKÍ (t.d. þessa leiks, sem var eiginlega kornið sem fyllti mælinn og hvatti mig til skrifanna) til að átta sig á þessu.
Sjálfsagt er trúverðugleikinn misjafn milli liða og deilda – og sums staðar er skráningin ábyggilega í öruggum höndum og til fyrirmyndar. Ég reikna t.d. með því að í Iceland-Express deildunum sé betur vandað til verka en í neðri deildum. En vegna þess að ég fylgist mjög náið með nokkrum leikmönnum mér tengdum, bæði í efstu deild og 1. deild karla, og mæti á flesta leiki, veit ég að ýmsar brotalamir eru á skráningunni á báðum stöðum. Sjálfsagt er ástandið best varðandi skotnýtingu, stigaskor og fráköst, þessa einföldustu þætti, þó þar sé reyndar líka pottur brotinn og sumar villurnar alveg furðulegar, vægast sagt. En aðrir þættir, eins og stoðsendingar, tapaðir boltar og stolnir, sérstaklega stoðsendingar, eru stundum algerlega út í hött, barasta hrein þvæla, svo talað sé tæpitungulaust!
Þetta er grafalvarlegt mál og má ekki líðast. Vinnubrögð af þessu tagi kippa grundvellinum alveg undan öllu faglegu mati og umræðu. Og sverta þá glæsilegu umgjörð sem við viljum hafa um körfuboltann. Því vitlaus tölfræði er verri en engin. Hún er hrein lygi!!!
Tölfræðiskráning í „beinni“ er mikið vandverk og það er útilokað að því geti aðrir sinnt með viðunandi hætti en þrautþjálfað fólk, helst komið vel yfir fermingaraldur. Með þessum orðum er ég ekki að setja ofan í við skrásetjara, sem áreiðanlega reyna sitt besta. Það eru forsvarsmenn félaganna sem bera á þessu ábyrgð, að fá til verka hæft fólk og þjálfa það til starfa. Það gengur a.m.k. ekki að grípa næsta mann sem sést á vappi við íþróttahúsið 10 mínútum fyrir leik og planta honum við tölvuna, eins og stundum varð því miður raunin við mönnun ritaraborðsins í gamla daga.
Það er í höndum KKÍ, og á þess ábyrgð, að þessir hlutir séu í lagi. Ég skora á forsvarsmenn sambandsins að taka þetta til alvarlegrar athugunar. Ýmsar leiðir eru færar til að kanna ástandið, en ef félögunum er ekki treystandi til að hafa þetta í lagi verður hreinlega að taka leikina upp og skrá tölfræðina eftirá. Því mun fylgja aukakostnaður fyrir félögin, en það verður þá svo að vera.
Nú er tölfræðiskráningin í ólestri og það er ólíðandi.
Gylfi Þorkelsson