Keflvíkingar hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku í Iceland Express deild kvenna en hin geysiöfluga Jacquline Adamshick er með brotið bein í rist og verður því ekki með Keflvíkingum það sem eftir lifir leiktíðarinnar. Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur staðfesti þetta í samtali við Karfan.is í dag.
Ekki þarf að fjölyrða um hæfni Adamshick sem hefur verið með 24,7 stig, 15,8 fráköst og 2,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.
,,Fjórða beinið í ristinni er brotið hjá henni og læknirinn ætlaði ekki að trúa því að hún hefði spilað tvo leiki með þessi meiðsli,“ sagði Jón Halldór en leikmaðurinn beit á jaxlinn í síðustu tveimur viðureignum gegn KR en eftir síðasta leik í DHL-Höllinni var sársaukinn orðinn of mikill.
,,Hún var mjög þjáð en upprunalega sást brotið ekki við röntgenmyndatöku svo hún fékk meðhöndlun fyrir leikinn á þriðjudag og gat þá stigið í fótinn eðlilega. Jackie var svo svakalega þjáð eftir leikinn á þriðjudag og svaf ekkert um nóttina svo morguninn eftir fórum við með hana á spítalann,“ sagði Jón Halldór og þar fékkst brotið staðfest og Adamshick sett í gifsi þar sem fjórða beinið í ristinni var í sundur.
Varðandi stöðuna á leikmannahópnum sagði Jón Halldór að sú ákvörðun hefði verið tekin að reyna að fylla skarð Adamshick þó vissulega sé um vandaverk að ræða en hvort sá leikmaður nái því að vera með í kvöld eigi enn eftir að koma í ljós.
Keflavík tekur á móti KR í kvöld kl. 19:15 í þriðju undanúrslitaviðureign liðanna en staðan í einvíginu er jöfn, 1-1. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit.