spot_img
HomeFréttirAðalsteinn líkast til frá út tímabilið

Aðalsteinn líkast til frá út tímabilið

13:30
{mosimage}

(Aðalsteinn Pálsson í leik með Blikum)

Liðsmenn Breiðabliks verða líkast til að sætta sig við að fyrirliði þeirra, Aðalsteinn Pálsson, verði ekki meira með á þessari leiktíð sökum meiðsla. Aðalsteinn meiddist illa á ökkla gegn Snæfellingum fyrr á leiktíðinn. Þá er óvíst hvort Hjalti Vilhjálmsson verði meira með og Emil Jóhannsson er enn meiddur. Einar Árni Jóhannsson sagði í samtali við Karfan.is að þetta væri mikil blóðtaka fyrir Blika. Karfan.is ræddi einnig við Aðalstein en óvíst er hvenær hann kemst í aðgerð.

,,Ég hef ekki heyrt frá lækninum ennþá og get því lítið tjáð mig um þetta en þær niðurstöður sem ég hef fengið á þessum tímapunkti eru að ég er með brotið bein í ökkla og þarf að fara í aðgerð,“ sagði Aðalsteinn sem er búinn að leika 6 deildarleiki með Blikum og hefur gert í þeim 6,8 stig að meðaltali í leik.

,,Ég vonast til þess að komast aðgerð sem allra fyrst en ég veit ekki hvenær það verður nákvæmlega en ég verð frá í langan tíma og að öllum líkindum er tímabilið farið fyrir mig,“ sagði Aðalsteinn en sú staðreynd veltur á því hvenær hann komist í aðgerð og hvernig hún muni ganga. ,,Þetta er auðvitað áfall og ekki það sem ég vonaðist eftir á mínu fyrsta úrvalsdeildartímabili en ég mun halda mér í formi og vona það besta,“ sagði Aðalsteinn en Blikar hafa verið að glíma við töluverð meiðsli í vetur.

,,Nánast allir leikmenn liðsins hafa lent í einhverjum meiðslum og það er ljóst að ástandið er erfitt núna og Breiðablik má ekki við mikið meiri áföllum. Ég hef hins vegar mikla trú á þeim mönnum sem skipa liðið nú, þeir munu stíga upp og spila betur fyrir vikið. Við sýndum það í síðasta leik gegn Stjörnunni þegar við snerum mótlætinu okkur í hag og náðum mikilvægum sigri. Þetta er samstilltur hópur með marga unga og efnilega leikmenn sem eru þyrstir í sanna sig og þetta er einfaldlega upplagt tækifæri fyrir þá. Við gömlu kallarnir stöndum á bak við þá og reynum að ala þá upp! Það veitir ekki af í sumum tilfellum,“ sagði Aðalsteinn en félagi hans Hjalti Vilhjálmsson segist ætla að koma til baka áður en langt um líður.

,,Það er reyndar ekki komið á hreint hvort ég fari í aðgerð en það eru einhverjar beinflísar sem eru í ökklanum sem eru að angra mig og einnig eitthvað auka bein. Ég fæ líklega að vita það á þriðjudaginn næsta hvernig þetta verður því þá hitti ég lækninn og hann ætlar að fara yfir þetta með mér,“ sagði Hjalti sem gekk til liðs við Blika frá Fjölni í sumar.

,,Núna er ég bara að einbeita mér að náminu og þjálfun er einmitt að byrja í prófum þannig að það er nóg að gera þó svo að maður sé ekki í bolta. Það hefur verið erfitt hjá mér að ná að spila heill eitt tímabil en maður er nú ekki orðinn það gamall þannig að ég hugsa að ég verði kominn aftur áður en langt um líður, ég er allavega bjartsýnn á það,“ sagði Hjalti.

Emil Jóhannsson er enn meiddur en Blikar hafa sýnt það að þeir deyja ekki ráðalausir og unnu t.d. góðan útisigur á Stjörnunni í síðasta leik.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -