Grindavíkurstúlkur komu, sáu og sigruðu í Toyotahöllinni í gær þegar þær lögðu meistaralið Keflavík, 75-78 í bráðskemmtilegum leik. Grindavík voru einfaldlega tilbúnari í verkefnið að þessu sinni og það ásamt smá seiglu skilaði þeim sigri á meisturunum.
Grindavík mættu til leiks gríðarlega einbeittar og ætluðu sér stóra hluti. Undir dyggri stjórn Péturs Guðmundssonar hófu þær leikinn nokkuð vel en Keflavíkur stúlkur voru alls ekki á því að láta gera lítið úr sér á heimavelli og því var leikurinn nokkuð jafn á byrjunar mínútum leiksins. Það sem einkenndi fyrsta leikhluta var sú staðreynd að bæði lið voru að fá nokkuð opin skot en þau hreinlega vildu ekki fara ofaní og þá sérstaklega hjá Keflavíkurliðinu sem fóru illa með færi sín undir körfunni.
Grindavíkur liðið leiddi með 2 stigum eftir fyrsta leikhluta og með 5 stigum í hálfleik. Keflavík kom hinsvegar sterkt til leiks í seinni hálfleik og voru fljótar að jafna og komast yfir í leiknum. Heimaliði virtist vera komið á skrið en gestirnir neituðu að gefast upp og með 7 stigum frá Petrúnellu Skúladóttur voru þær aftur komnar fljótlega yfir í 3 leikhluta. Gestirnir voru ekki hættir og komust mest í 7 stiga forystu í leikhlutanum. Staðan var 54-60 fyrir síðasta leikhlutann. Síðasta leikhlutan náðu Grindavík að halda vel sínu og leiddu með 5 stigum nánast allan leikhlutann. Það var ekki fyrr en um 2 mínútur voru eftir að Keflavík hrökk í gang og náðu góðu „run-i“. Þær náðu að minnka muninn niður í 2 stig þegar 27 sekúndur voru eftir. Grindavíkur stúlkur fóru illa með boltann og töpuðu honum fljótlega og þar með voru Keflavík í góðri stöðu að jafna eða jafnvel stela sigrinum. En þrátt fyrir að fá 2 tilraunir á körfu gestanna frá Keflavík náðu þær ekki að koma boltanum ofaní og því hrósuðu gestirnir sigri.
Petrúnella Skúladóttir var maður þessa leiks með 19 stig og 7 fráköst. Hjá Keflavík átti Ingibjörg E Vilbergsdóttir frábæran seinni hálfleik en átti líklega einn sinn daprasta fyrri hálfleik sem hún hefur spilað. Pálína Gunnlaugsdóttir var drífandi í liðinu líkt og venjulega en náði ekki að rífa upp sitt lið að þessu sinni.



