spot_img
HomeFréttirBarði mann og annan til að komast á meistaraflokksæfingu

Barði mann og annan til að komast á meistaraflokksæfingu

14:10
{mosimage}

(Jóhann Árni Ólafsson)

Njarðvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson söðlaði um síðasta sumar og samdi við Proveo Merlins í þýsku Pro B deildinni. Þar með var Jóhann orðinn atvinnumaður í körfubolta og búinn að standa við þau orð til móður sinnar að hann ætlaði sér í atvinnumennsku, hann lét þessi orð reyndar falla 7 ára gamall en maður orða sinna er hann engu að síður. Jóhann hefur verið fastamaður í byrjunarliði Merlins á tímabilinu og gerir að jafnaði 14,2 stig að meðaltali í leik. Karfan.is ræddi við Jóhann um atvinnumennskuna og lífið í Þýskalandi en þessi öflugi körfuboltamaður sleit barnskónum á einhverjum rosalegasta körfuboltavelli landsins, Holtsgötu 19.

Fyrir þá sem ekki vita þá er óhætt að kalla Holtsgötu 19 ,,Litlu ljónagryfjuna.“ Þar bjuggu þeir bræður, Jóhann Árni og Guðbergur Ólafssynir og stóðu fyrir harðskeyttustu körfuboltaleikjum sem sést hafa í yngri flokkum og þó víðar væri leitað. Þetta getur undirritaður kvittað upp á því reglulega kvörtuðu foreldrar bræðranna og foreldrar greinarhöfundar yfir alvarlegum skemmdum á fasteignum sínum undan þeim krakkaskara sem þarna kom saman.

,,Það var í rauninni ekki menningarsjokk að koma til Þýskalands en í fyrstu var allt til bráðabirgða, húsnæðið, bíllinn og fleira. Ég var langt frá bænum þarna fyrst en nú er þetta allt komið í topp stand,“ sagði Jóhann sem býr í Crailsheim í Þýskalandi. Jóhann fór á lausum samningi frá Njarðvík eins og körfuboltamönnum er tamt og því mun uppeldisfélagið aldrei fá krónu fyrir hans afrek í körfubolta. ,,Því miður er þetta ekki eins og í fótboltanum,“ sagði Jóhann.

{mosimage}

Besta verkstæðið er á Íslandi
,,Mitt hlutverk í Merlins hefur verið að sækja á körfuna og taka þau opnu skot sem ég fæ. Ég hef fengið algert frelsi til að vera ég sjálfur sem leikmaður og nú er bara komin krafa á mann um að standa sig. Ég hef spilað með köppum á borð við Brenton Birmingham og Jeb Ivey hér heima og ábyrgðin hefur hvílt á þeim. Nú er maður útlendingurinn í liðinu og ber miklu meiri ábyrgð en maður gerði heima. Ég hef haft mjög gott af því að þurfa að vera alltaf á tánum og maður þarf að standa sig virkilega vel til að missa ekki byrjunarliðssætið,“ sagði Jóhann sem hefur tekið nokkra rússíbanareið allt frá því hann kom til Þýskalands.

,,Í fyrstu var ég að spila góða leiki og svo tók ég smá dýfu þar sem ég gerði bara 5-7 stig í nokkrum leikjum og þá var ég bara kallaður á fund og mér gert grein fyrir því að ég yrði að standa mig í stykkinu,“ sagði Jóhann en þegar hann tók smá niðurdýfu í sínum leik var kallaður til franskur leikmaður í hans stöðu sem vigtar 120 kg og er 205 sm. að hæð.

,,Þar sem forsvarsmenn Merlins héldu að ég væri bara upp og niður leikmaður fengu þeir þennan frakka í liðið en hann sleit eitthvað í hnjánum á sér í sumar og meiddist eitthvað meira og þá var kaninn okkar veikur framan af leiktíð svo ég varð bara að standa mig,“ sagði Jóhann og er sáttur við eigin frammistöðu enda hefur honum tekist að halda virkilega sterkum leikmönnum utan byrjunarliðsins.

Jóhann hefur fengið sinn skerf af meiðslum á ferlinum og síðustu tvö ár hefur hann verið að glíma við meiðsli sem mörgum fagaðilum hefur reynst erfitt að útskýra. ,,Inga og Stefán Stefánsson hafa náð góðu taki á mér og meiðslum mínum og vita upp á hár hvað þau eru að gera. Ég er búinn að fá allar útskýringar á þessum meiðslum, klemmdar taugar, meltingartruflanir og fleira en það hefur komið í ljós að bakið á mér bólgnar upp og togar í nárann,“ sagði Jóhann en þegar fagaðilar í Þýskalandi fóru að kanna meiðslin hjá honum fannst Jóhanni hann vera kominn á byrjunarreit. ,,Ég vildi bara komast heim en yfirmenn mínir hjá Merlins voru ekki alveg að kaupa það að enginn í Þýskalandi gæti hjálpa mér. Það kom svo að því að ég haltraði heilan leik með Merlins og þá hleyptu þeir mér heim til Ingu og Stefáns,“ sagði Jóhann sem ákvað að taka áhættuna á Íslandsferð á kostnað þess að missa byrjunarliðssæti sitt en hann kvaðst verða að fara því hann myndi örugglega missa það hvort eð er ef hann haltraði alla leiki.

{mosimage}
Fimm tíma akstur í útileiki

Jóhann segir að jafnaði séu tveir Bandaríkjamenn á hvert lið í Þýsku Pro B deildinni og dágóður slatti annarra leikmanna úr Evrópu og sagði þýsku Pro B deildin nokkuð sterkari en úrvalsdeildina hér heima. ,,Það eru samt ekki gæðaleikmenn í Pro B deildinni á borð við Jón Arnór, Jakob Örn og Brenton en þeir spila allir á Íslandi af sínum ástæðum. Heilt yfir tel ég að Pro B deildin sé mun jafnari en hún er á Íslandi um þessar mundir,“ sagði Jóhann sem þarf yfirleitt að aka í 5 tíma eða lengur í útileiki Merlins.

,,Aksturinn tekur á og margir útivellir hérna eru mjög erfiðir en það er misjafnt hvernig mætingin er. Stuðningsmenn Merlins eru með þeim bestu í deildinni og yfirleitt eru um 1500 manns á heimaleikjunum okkar og völlurinn er alger gryfja. Annan hvern laugardag eigum við heimaleiki og svo kemur maður á suma útivellina þar sem eru ekki nema um 300 manns í húsinu en það eru allar úgáfur í þessu,“ sagði Jóhann sem hefur fátt lært í þýskunni annað en að lesa á matseðlana.

,,Það tala allir ensku í liðnu en það sem ég kann á þýsku eru matseðlarnir á veitingahúsunum sem við borðum á,“ sagði Jóhann og hló. ,,Þýskan er ekkert voðalega heillandi tungumál sem manni langar til að læra en ég er farinn að skilja smávegis en ég tjái mig ekkert á þýsku daginn út og daginn inn,“ sagði Jóhann.

Í skotkeppni við drukkna stuðningsmenn

Jóhann segir umgjörðina í kringum Merlins liðið vera til fyrirmyndar en Proveo fyrirtækið er aðalstyrktaraðili liðsins og eins og gjarnt er með lið í Evrópu bera Merlins nafn Proveo. Sjónvarpsstöð er rekin í kringum Merlins og þar hefur Jóhann, að eigin sögn, komið fram í mjög svo vafasömu viðtali fyrir íþróttamann.

,,Ég fór í viðtal og þetta var einhver kynning á skemmtistað og spyrillinn var í glasi og svo var ég plataður í skotkeppni við drukkið fólk kvöldi fyrir leik hjá okkur. Þetta var vafasamt en afar hressandi,“ sagði Jóhann og ljóst að umgjörðin um leiki liðsins er til mikillar fyrirmyndar hjá Merlins.

,,Umgjörðin um leikina hjá okkur er mjög góð og heima á Íslandi hefur hún tekið miklum framförum en við eigum töluvert í land ef ég ber þetta saman við Merlins. Það sem er að virka vel hjá Merlins er að þetta er hálfgerður félagsklúbbur í leiðinni. Það eru hljómsveitir á leikjum, The Pimp, sem er svona Joey Drummer týpa, heldur upp stemmningunni og mikið um að vera í kringum liðið fyrir og eftir leiki. Það er selt áfengi á leikjunum og það hefur tekist að halda fólki góðu en það getur verið út af því að við stöndum okkur vel á heimavelli,“ sagði Jóhann sem segir það vel vera raunhæf markmið fyrir Merlins að stefna á sæti í Pro A deildinni. Tvö lið fara upp úr Pro B deildinni í Pro A deildina en um þessar mundir eru Merlins í 3. sæti deildarinnar.

,,Það á enginn séns í 1. sætið í okkar deild, það er frátekið af Rhondorf en við unnum t.d. bæði Pro A liðin sem við mættum á undirbúningstímabilinu,“ sagði Jóhann en þegar viðtalið var tekið við Jóhann hafði Rohdorf ekki tapað leik en hafa nú tapað tveimur leikjum. ,,Út af kanadæminu í Þýskalandi eru deildinar ekki eftirsóknarverðar. Mörg lið í Bundesligunni eru t.d. með bara heilt lið af Bandaríkjamönnum en bestu evrópsku leikmennirnir vilja spila á Ítalíu, Spáni eða í Frakklandi. Sjálfur sé ég Þýskaland sem stökkpall og finnst þetta vera frábær staður til að hefja minn atvinnumannaferil.“

{mosimage}

Er stöðugari skotmaður
Það er fátt um fína drætti þegar kemur að sérþjálfun einstaklingsins í liði Merlins en Jóhann segir aðstöðuna vera alla hina bestu. ,,Sérþjálfun er kannski ekki til staðar heldur verður maður bara að leita til aðalþjálfarans. Þjálfari liðsins frá því í fyrra var gamall þýskur landsliðsmaður og hann lést fyrir skemmstu og það var mikill missir í honum,“ sagði Jóhann en hvar hefur hann verið að bæta sig í leiknum?
,,Skotið mitt hefur lagast alveg helling, ég fann það strax að það var eitthvað sem ég varð að gera og nú er ég mun stöðugari skotmaður og þá opnast fyrir mann til þess að keyra upp að körfunni,“ sagði Jóhann og kvað Þjóðverjana var einnig mikið fyrir líkamlegan styrk. ,,Það er bara skyldumæting í ræktina þrisvar í viku og ég held að það sé óhætt að segja að ég sé í mínu besta formi,“ sagði Jóhann.

Færa verður fórnir
Ólíklegt er að það dugi að menn sendi erlendis til umboðsmanna spólu af einum góðum leik hjá sér og næsta dag sé komið atvinnumannatilboð í póstinum. Gríðarleg vinna liggur að baki og nú síðustu ár hefur íslenskum leikmönnum í atvinnudeildum Evrópu fjölgað nokkuð þó útrásin sé í stuttu stoppi á Íslandi um þessar mundir. Vinnan sem liggur að baki útheimtir miklar fórnir og það tekur Jóhann undir heilshugar.

,,Það er auðvelt að vera 7 ára og segjast ætla að vera atvinnu maður en svo er það annað mál að elstast á eftir svona draumi. Það eru miklar fórnir sem maður færir um leið. Sumarfrí með fjölskyldunni fara oft forgörðum og hverja einustu sumarhelgi síðan ég var gutti hef ég verið á landsliðsæfingum. Þetta gerði maður bara því maður elskaði körfubolta og svo vaknar maður einn daginn og sé að það er möguleiki á því að gera þetta að atvinnu sinni. Það er til fullt af strákum sem hafa getu til að gera þetta en það er allt annað að hafa metnaðinn og sjálfsagann til að fylgja þessu eftir,“ sagði Jóhann og bætti því við að það væri ástæða fyrir því að allar helstu íþróttastjörnur heims segðu í flest öllum viðtölum – æfing, æfing, æfing!

Jóhann er nú með eins árs atvinnumannasamning við Proveo Merlins en sagði að það hefðu oft komið stundir þar sem hann hefði hugsað um að hætta í körfubolta. ,,Það eru örugglega margir þjálfarar sem glotta þegar þeir lesa þetta en ég var oft ekki sá duglegasti á æfingum en eins og t.d. margir Njarðvíkingar þekkja að ef maður var ekki á æfingu þá var maður úti á körfuboltavelli,“ sagði Jóhann og kveðst óviss um framhaldið.

,,Það eina sem er í vissu er þetta tímabil og nú er það í raun bara undir mér komið að standa mig en fjárhagurinn í heiminum spilar auðvitað inn í þetta líka. Ef Merlins komast upp verður örugglega kanafjölgun í lðinu en það væri óskandi að við kæmumst upp og maður væri þá enn inni í myndinni hjá þeim en núna er markmiðið hjá mér bara að leika sem best.“

{mosimage}

Hef hugleitt það að koma heim
Njarðvíkingar hafa oft verið líklegri til afreka en einmitt þetta árið og Jóhann viðurkenndi að hann hefði hugsað það með sér að koma bara heim og leggja sín lóð á vogarskálarnar. ,,Inn á milli í Njarðvíkurliðinu eru frábærir leikmenn en það vantar breidd og maður gæti kannski hjálpað eitthvað en vandamálið í Njarðvík er stærra en að ég hafi farið. Liðið missti fjölda leikmanna en vonandi fær Njarðvík sína ungu menn til baka inn í félagið og fer að treysta þeim fyrir stórum verkefnum, annað en gert hefur verið síðustu ár,“ sagði Jóhann og þó að lið á Íslandi hafi síðustu ár lagt mikla ábyrgð á erlenda leikmenn segir Jóhann að hann hafi lært mikið af þeim erlendu leikmönnum sem hann hefur spilað með.

,,Maður lærir hluti eins og að láta leikinn koma til sín og að skila hliðarhlutverki en maður hefði vissulega viljað meira frelsi innan liðsins til að gera hina ýmsu hluti. Ég vildi að staðan í Njarðvík hefði verið svona eins og hún er í dag þegar ég var 16 ára en þá þurfti maður að berja mann og annan til að komast á meistaraflokksæfingu. Núna labba menn bara inn á æfingar og ég vona að líti ekki á þetta sem sjálfsagðan hlut heldur nýti tækifærið vel,“ sagði Jóhann Árni en hann skortir ekki neitt um þessar mundir.

,,Mér líður vel í Crailsheim. Ég er að gera það sem ég elska og svo kannski að loknum ferlinum þjálfar maður eitthvað áfram en ég hef þjálfað síðustu 3-4 ár í Njarðvík en á meðan ég er úti þá verð ég í fjarnámi,“ sagði Jóhann sem mætir Hannover Tigers þann 3. janúar næstkomandi.

Staða Merlins í Þýsku Pro B deildinni:
http://www.zweitebasketballbundesliga.de/linkit.php?menuid=39&topmenu=23&keepmenu=inactive


[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -