Valur tryggði sér í gær áframhaldandi starfskrafta 8 leikmanna, þegar Guðbjörg Sverrisdóttir, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Dagbjört Samúelsdóttir, Bylgja Sif Jónsdóttir, Regína Ösp Guðmundsdóttir, Bergþóra Tómasdóttir Holton og Elfa Falsdóttir skrifuðu allar undir samning þess efnis að leika með liðinu á komandi tímabili.
Þá náði félagið í einn nýjan leikmann í Kristínu Maríu Matthíasdóttur frá Fjölni. Kristín er 17 ára bakvörður, sem allan sinn feril hefur leikið með Fjölni ásamt því að hafa verið í bæði undir 15 og undir 16 ára liðum Íslands.
Fréttatilkynning Vals:
Það var sannkallaður undirskriftardagur í Valshöllinni í gær. En þá framlengdu 8 leikmenn samning sinn við körfuknattleiksdeildina og nýr leikmaður bættist við hópinn.
Kristín María Matthíasdóttir kemur frá Fjölni en þar hefur hún leikið allan sinn feril. Hún er 17 ára bakvörður og spilaði sl. tvo vetur í meistaraflokki Fjölnis í 1. deildinni auk þess sem hún spilaði með yngri liðum félagsins. Hún á leiki bæði með U15 og U16 ára liðum Íslands. Mjög efnilegur leikmaður þar á ferðinni sem verður spennandi að fylgjast með á næstu árum.
Þær sem framlengdu samningi sínum eru: Guðbjörg Sverrisdóttir, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Dagbjört Samúelsdóttir, Bylgja Sif Jónsdóttir, Regína Ösp Guðmundsdóttir, Bergþóra Tómasdóttir Holton og Elfa Falsdóttir.
Hópurinn hefur æft stíft í allt sumar og eru leikmenn spenntir fyrir lokaundirbúningnum sem nú fer í hönd. Erlendur leikmaður verður kynntur til leiks eftir helgina og er stefnan að hópurinn nái allur að æfa saman megnið af september.
Á meðfylgjandi myndum má annars vegar sjá leikmennina 8 og hins vegar Kristínu Maríu og Darra Frey Atlason þjálfara liðsins.