Spennan magnast nú á Evrópameistaramótinu í Litháen en 8-liða úrslit keppninnar hefjast í dag með viðureignum Spánverja og Slóvena annarsvegar og Makedóna og Litháa annarsvegar.
Leikur Spánar og Slóveníu hefst kl. 15.00 að íslenskum tíma og kl. 18.00 hefst leikur Litháa og Makedóna.
Flestir búast við sigri Spánverja gegn Slóvenum í dag en Slóvenar unnu Finna í hreinum úrslitaleik um sæti í 8-liða úrslitunum. Erazem Lorbek leikmaður Slóvena veit hvað hann syngur um lið Spánverja en hann leikur með Barcelona og segir að í dag mæti Slóvenar besta liðið mótsins.
Víst er að fullt verður í húsinu þegar Litháen og Makedónar mætast, heimamenn munu ekki láta sig vanta á leikinn enda körfuknattleikur þjóðaríþrótt Litháa. Makedónar hafa vakið verðskuldaða athygli á mótinu en heimamenn mega vara sig á þeim þó flestir telji Litháa vera sterkari.
Mynd/ FIBA EUROPE: Martynas Pocius og félagar í Litháen fá væntanlega magnaðan stuðning í dag þegar þeir mæta Makedónum.