Það fer heldur betur að styttast í stóru stundina. Í dag eru einungis 8 dagar í að Ísland hefji leik á lokamóti Eurobasket 2017 og það í annað skiptið í röð.
Þann 31. ágúst klukkan 13:30 á íslenskum tíma stígur Ísland á völlinn gegn sterku liði Grikklands. Það verður fyrsti leikur Íslands af fimm leikjum á átta dögum.
Karfan.is mun hita vel upp fram að móti og telja niður dagana til að stytta biðina. Í dag eru 8 dagar í mót og því vel við hæfi að minnast frábærrar frammistöðu fyrirliða liðsins, Hlyns Bæringssonar, í undankeppni þessarar Evrópukeppni.
Fyrir utan það að komast yfir 100 leikja múrinn í keppninni skilaði Hlynur hreint frábærum tölum fyrir íslenska liðið. Af öllum leikmönnum mótsins var hann þriðji í fráköstum með 8.2 í leik, en Aðeins Joao Gomes (Portúgal/Aquila Basket) og Jusuf Nurkic (Bosnía og Hersegóvína / Denver Nuggets) tóku fleiri fráköst á mótinu.
Í framlagi var hann áttundi hæsti leikmaðurinn með 18.7 stig í leik. Fram að síðasta leik mótsins var hann í þriðja sæti á þeim lista, en eftir hann komust leikmenn á borð við Goran Dragic (Sóveníu/Miami Heat), Zaza Pachulia (Georgíu/Golden State Warriors) og Jusuf Nurkic (Bosnía og Hersegóvína / Denver Nuggets) upp fyrir hann.
Skotnýting Hlyns var einnig til fyrirmyndar. Setti 57.1% skota sinna og var með því með fimmtu bestu skotnýtingu allra á mótinu, en bestu skotnýtingu allra var Gaspar Vidmar (Slóvenía/Banvit) með, en hann skaut 68% í keppninni.
Algjörlega frábær frammistaða frá Hlyn í þessari undankeppni. Að lokum virtist enginn ánægðari með að liðið náði að tryggja sér seðilinn á lokamótið, eins og sést á þessari fínu mynd sem að ljósmyndari Karfan.is, Bára Dröfn, náði af fagnaðarlátunum eftir leik gegn Belgíu.
Hérna er meira um tölfræði Hlyns í undankeppninni
Hérna er meira um tölfræðileiðtoga Íslands í undankeppninni