spot_img
HomeFréttir’76 landsliðið mætir á Pollamót Þórs 1. október "Ekki til betri tími...

’76 landsliðið mætir á Pollamót Þórs 1. október “Ekki til betri tími til að hittast, fara yfir gamlar lygasögur”

Mótsnefnd segir frá því að unglingalandslið karla skipað leikmönnum fæddum árið 1976 tekur þátt á Pollamóti Þórs í körfuknattleik sem haldið verður laugardaginn 1. október næstkomandi í Íþróttahöllinni á Akureyri. Umrætt unglingalandslið var afar öflugt og létu leikmenn liðsins heldur betur að sér kveða seinna meir sem úrvalsdeildarleikmenn, A-landsliðsmenn og atvinnumenn. Liðið skipuðu meðal annars kunnir fyrrum A-landsliðsmenn á borð við Friðrik Stefánsson, Gunnar Einarsson, Helga Jónas Guðfinnsson, Ólaf Ormsson og Páll Kristinsson, svo einhverjir séu nefndir, en nær allir leikmenn liðsins hafa boðað komu sína norður á Pollamótið.

Tilefni þess að þessi harðsnúni hópur tekur þátt á Pollamótinu er sú að í ár eru 30 ár liðin frá því að þessi unglingalandsliðshópur kom fyrst saman undir stjórn Axels heitins Nikulássonar, sem lést úr krabbameini á síðasta ári. „Við höfum stefnt lengi að því að taka hitting en tíminn líður hratt. Það kvarnast úr hópnum. Við misstum Berg Emilsson langt fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum og svo í fyrra sjálfan Foringjann, Axel. Það eru 30 ár síðan hann kallaði nokkra stráklinga saman í æfingabúðir á Króknum og svo var sagan skrifuð. Þannig núna er bara ekki til betri tími til að hittast, fara yfir gamlar lygasögur og hetjudáð og skjóta nokkrar körfur saman. Ég hlakka mikið til að hitta alla þessa meistara aftur,“ sagði Þórsarinn og fyrirliði ´76 landsliðsins, Hafsteinn Lúðvíksson í stuttu viðtali.

´76 landsliðið – einnig þekkt sem „SSA76“ (Schäfer Sveit Axels) – er frábær viðbót við skemmtilega flóru Pollamótsins og það verður virkilega gaman fyrir hin liðin að reyna sig við gamlar landsliðskempur og harðjaxla úr boltanum.

Mótsnefndin hvetur heldra körfuknattleiksfólk að skrá lið sín sem fyrst til leiks á Pollamót Þórs í körfuknattleik þar sem mikill áhugi er á mótinu. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á [email protected]. Mótsgjald er 25.000 kr. á lið (þar af 10.000 kr. staðfestingargjald).

Sjá frekari upplýsingar á Facebook síðu Pollamóts Þórs í körfuknattleik.

Myndin hér fyrir ofan: Efri röð f.v. Ólafur Ormsson, Hjalti Jón Pálsson, Friðrik Stefánsson, Baldvin Johnsen, Páll Kristinsson og Ægir Gunnarsson. Neðri röð f.v.: Arnþór Birgisson, Bergur Már Emilsson, Ómar Sigmarsson, Helgi Jónas Guðfinnsson, Gunnar Einarsson og Hafsteinn Lúðvíksson.

Mynd að neðan: Efri röð f.v.: Axel Nikulásson, Hafsteinn Lúðvíksson, Ægir Gunnarsson, Óskar Pétursson, Baldvin Johnsen, Páll Kristinsson og Friðrik Stefánsson. Neðri röð f.v.: Arnþór Birgisson, Ólafur Ormsson, Gunnar Einarsson, Helgi Jónas Guðfinnson, Bergur Már Emilsson og Ómar Sigmarsson.

Fréttir
- Auglýsing -