spot_img
HomeFréttir7 Góðir Samningar

7 Góðir Samningar

 

Nú eftir 1. júlí síðastliðinn opnaðist leikmannamarkaður NBA deildarinnar upp á gátt aftur. Launaþak deildarinnar er að hækka og það er eins og gjörsamlega allir hafi misst vitið. Sem dæmi þá fékk Mike Conley, leikmaður Memphis Grizzlies, á dögunum besta samning sem sést hefur í sögu NBA deildarinnar. Enn eru einhverjir leikmenn án samnings, en nokkur lið og leikmenn eiga enn eftir að gera upp hugi sína. Hér að neðan eru hinsvegar 7 góðir samningar sem liðin gerðu við fyrrum leikmenn sína.

 

Hérna eru 10 bestu leikmannaflutningar síðustu daga.

Hérna eru 5 verstu leikmannaflutningar síðustu daga.

Hérna eru 7 mestu kostakaup síðustu daga.

 

Það skal tekið fram að þetta á aðeins við um leikmenn sem eru að semja aftur við fyrrum lið sín. Einnig er listinn ekki í neinni sérstakri röð.

 

 

Andre Drummond – Detroit Pistons

 

26 miljónir $ – 5 ára samningur

 

Andre, einnig þekktur sem Stóra Mörgæsin (e. Big Penguin) hefur allt frá því hann kom inn í deildina fyrir fjórum árum, jafnt og þétt, bætt sig á hverju einasta ári. Síðasta tímabil hans besta hingað til, rúm 16 stig og 15 fráköst að meðaltali í leik. Með þessum samning, sökum lengdar og heildarstærðar hans, eru forráðamenn Detroit að veðja á að næstu 5 ár verði jafn gæfurík hjá kappanum. Við áætlum einnig að svo verði. Maðurinn missir varla af leik, hefur spilað 99,2% allra leikja Pistons liðsins síðustu 3 tímabil og ef hann heldur áfram að spila líkt og hann hefur verið að spila (tölum nú ekki um ef hann bætir sig) þá er þeim peningum sem hann fær í laun, vel varið.

 

 

Mike Conley – Memphis Grizzlies

 

30,6 miljónir $ – 5 ára samningur

 

Ef það er eitthvað sem við höfum lært af leikmannamarkaði síðustu ára þá er það að stóru nöfnin eru almennt oft ekki á lausu, þrátt fyrir að þau séu oft orðuð við hin og þessi lið. Þaðan af er það kannski enn sjaldnar sem einhver raunverulegur möguleiki er fyrir lið eins og Memphis Grizzlies að næla í stjörnuleikmann. Því er kannski við hæfi að þeir næðu þessum samning (þeim stærsta í sögu deildarinnar) við Mike Conley. Þó leikmaðurinn hafi aldrei verið valinn í stjörnulið, hefur hann heldur betur skilað sínu til félagsins síðan þeir völdu hann í nýliðavalinu 2007. Hefur verið með um 15 stig og 6 stoðsendingar að meðaltali í leik yfir ferilinn. Síðasta tímabil var vonbrigði fyrir liðið, þar sem gjörsamlega allir voru meiddir. Það næsta ætti þó að vera betra. Nældu einnig í Chandler Parsons á leikmannamarkaði sumarsins. Ættu því að geta stillt upp Conley, Allen, Parsons, Randolph og Gasol sem byrjunarliði í haust. Það er alls ekki slæmt.

 

 

Nicolas Batum – Charlotte Hornets

 

24 miljónir $ – 5 ára samningur

 

Nic Batum er búinn að vera flottur leikmaður alveg síðan að Portland Trailblazers völdu hann í nýliðavalinu 2008. Kannski fyrir utan síðasta árið hans hjá Portland. Kom til Hornets frá þeim fyrir síðasta tímabil og náði aftur sömu hæðum og þegar hann var upp á sitt besta hjá Blazers. Að meðaltali með 15 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar í leik. Um 35% þriggja stiga skytta, sem er heldur ekki svo slæmt miðað við að hann tekur 6 slík skot að meðaltali í leik. Eftir að hafa farið í gegnum einhver meiðsli fyrstu 4 ár sín í deildinni hefur hann spilað 90% leikja síns liðs síðustu 4 ár. Það er feikinóg til þess að segja hann áreiðanlegan líka. Flottur samningur fyrir Hornets.

 

 

Bradley Beal – Washington Wizards

 

25,6 miljónir $ – 5 ára samningur

 

Hugsanlega mest gagnrýndi samningur á listanum til þessa. Sú gagnrýni er heldur ekkert úr lausu lofti gripin. Bradley Beal hefur verið ein meiðslahrúga síðan að hann kom inn í deildina. Hefur aðeins náð að taka þátt í 75% leikja síns liðs síðan að hann kom fyrir 4 tímabilum. Inn á milli hefur hann samt verið flottur. Skilaði 17 stigum, 3 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik. Líkt og Batum er hann einnig með góða nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna, skýtur 40% þaðan af um 5 skotum að meðaltali í leik. Eins og með alla leikmenn á þessum lista er þetta ákveðin áhætta, þ.e. að bindast einum leikmanni svo lengi fyrir háar fjárhæðir (það er takmarkað pláss undir launaþakinu). Við ætlum að segja að læknar Wizards viti eitthvað meira um heilsu Beal heldur en þeir er gagnrýna þennan samning. 

 

 

Jordan Clarkson – Los Angeles Lakers

 

12,5 miljónir $ – 4 ára samningur

 

Falist ekkert annað lið eftir kröftum Clarkson frá Los Angeles Lakers í gegnum skipti á stærri leikmanni ætti hann að verða mjög flottur fyrir þá. Er að fara inní sitt þriðja ár eftir tvö nokkuð flott tímabil fyrir (reyndar slakt) lið Lakers. 16 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik í fyrra. 4 ára samningur við kappann fyrir í heildina ekki nema 50 miljónir $ er ekki neitt (minnum á hækkandi launaþak), höldum við. Það gengur nákvæmlega ekki neitt hjá þeim að lokka til sín leikmenn með lausa samninga, en segjum að eitt sumarið takist það, þá er þessi samningur ekki einusinni vandamál. Frábær samningur fyrir liðið.

 

 

DeMar DeRozan – Toronto Raptors

 

27,8 miljónir $ – 5 ára samningur

 

Leikur DeRozan hefur verið mjög stígandi síðan að hann kom inn í deildina árið 2009. Hans besta tímabil, án alls vafa, í fyrra. 24 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það hefur líklegast farið um einhvern norðanmanninn þegar að fréttir þess efnis skutu upp kollinum í sí og æ að hann myndi snúa aftur til Los Angeles (þar sem hann er fæddur, uppalinn og hann fór í skóla) eftir þetta tímabil. Forráðamenn Raptors gerðu því vel í að ná samningum við kappann. 

 

 

 

Hassan Whiteside – Miami Heat

 

24,5 miljónir $ – 4 ára samningur

 

Ótemjan mikla Hassan Whiteside virðist loksins hafa verið taminn í fyrra af mönnum Pat Riley í Miami. Eftir að hafa verið valinn númer 33 í nýliðavali deildarinnar árið 2010 af Sacramento Kings (þeirri eyðimörk), spilaði hann aðeins 111 mínútur fyrir þá næstu 2 árin áður en þeir gáfust upp á honum. Við tók svakaleg för hans í gegnum þróunardeild NBA deildarinnar, sem og efstu deildir í Líbanon og Kína. Kom hann svo aftur inn í NBA deildina fyrir tímabilið 2014, fyrst fyrir Memphis Grizzlies (sem gáfu honum engin tækifæri), síðan Miami Heat. Þar sem hann svo fór að spila reglulega. Fyrsta tímabil sitt fyrir Heat skilaði hann 12 stigum, 10 fráköstum og 3 vörðum skotum að meðaltali í leik. Varð svo bara enn betri í fyrra og bætti þær tölur þónokkuð, 14 stig, 12 fráköst og 4 varin skot í leik. Var kosinn annar besti varnarmiðherji deildarinnar á eftir DeAndre Jordan á síðasta tímabili. Kannski ekki komin reynsla sem slík á hann sem leikmann (aðeins tvö ár), en það sem sést hefur er gott. Miami veðja á að hann eigi eftir að standa sig, við höldum einnig að það eigi eftir að verða raunin.

Fréttir
- Auglýsing -