Tindastóll og Þór frá Akureyri áttust við í æfingaleikí gærkvöldi. Leikurinn var líka ágóðaleikur fyrir Ingva Guðmundsson og fjölskyldu, en Ingvi heldur senn í mergskipti til Svíþjóðar. Alls söfnuðust 180.104 krónur á leiknum. www.tindastoll.is greinir frá.
Fjöldi fólks lagði leið sína í Síkið í gærkvöldi til að fylgjast með leiknum og til að leggja góðu málefni lið. Tindastóll sigraði með 86 stigum gegn 60 stigum Þórsara í nokkuð sveiflukenndum leik en leiknir voru 5 leikhlutar. Helgi Rafn Viggósson var stigahæstur heimamanna og kom Dimitar Petrusev næstur á eftir honum. Í liði gestanna voru Konrad Tota og Ólafur Torfason allt í öllu og var gaman að fylgjast með Ólafi í baráttunni við Dragoljub Kitanovic og augljóst að erfitt verður fyrir andstæðinga Þórs í vetur að hirða fráköst.
Í lið Tindastóls vantaði bandaríkjamanninn Michael Fratangelo, en hann er meiddur og óvíst um framtíð hans hjá félaginu á þessari stundu.
Eins og áður sagði söfnuðust um 180 þúsund krónur á leiknum í gær og rennur sú upphæð óskipt til Ingva og fjölskyldu og er það körfuboltahreyfingunni á staðnum sérstök ánægja að geta lagt hönd á plóginn.
Mynd: Hjalti Árnason – fleiri myndir hér