Það fer heldur betur að styttast í stóru stundina. Í dag eru einungis 18 dagar í að Ísland hefji leik á lokamóti Eurobasket 2017 og það í annað skiptið í röð.
Þann 31. ágúst klukkan 13:30 á íslenskum tíma stígur Ísland á völlinn gegn Giannis Antetokounmpo og félögum í Grikklandi. Það verður fyrsti leikur Íslands af fimm leikjum á átta dögum.
Karfan.is mun hita vel upp fram að móti og telja niður dagana til að stytta biðina. Miðherji íslenska landsliðsins, hinn 19 ára gamli Tryggvi Snær Hlinason, hefur heillað marga síðan að hann hóf að leika körfubolta fyrir aðeins fjórum árum. Mest var umtalið um hann eftir að hann lék með undir 20 ára liði Íslands á Evrópumótinu á Krít í sumar, en þar skilaði Tryggvi hverri frábærri framistöðunni á eftir annarri og endaði mótið sem framlagshæsti leikmaður þess, sem og í fimm manna úrvalsliði.
Aldrei áður hefur umfjöllun um ungan íslenskan leikmann verið jafn mikil og þetta síðasta sumar um Tryggva, þar sem að meðal annars Mike Schmitz á ESPN birti langa grein um hann.
Þó ekki sé komin endanleg niðurstaða á hvaða hópur fari fyrir Íslands hönd á EuroBasket lokamótið í Helsinki, verður að teljast ansi líklegt að Tryggvi verði hluti af þeim hópi og gaman verður að sjá hvernig honum á eftir að ganga þar gegn mörgum af bestu leikmönnum í heimi.
Brot af því helsta frá mótinu í sumar: