spot_img
HomeFréttir16 dagar í Eurobasket - Þegar að liðið tók við verðlaunum úti...

16 dagar í Eurobasket – Þegar að liðið tók við verðlaunum úti í vegakanti

Það fer heldur betur að styttast í stóru stundina. Í dag eru einungis 16 dagar í að Ísland hefji leik á lokamóti Eurobasket 2017 og það í annað skiptið í röð. 

 

Þann 31. ágúst klukkan 13:30 á íslenskum tíma stígur Ísland á völlinn gegn Giannis Antetokounmpo og félögum í Grikklandi. Það verður fyrsti leikur Íslands af fimm leikjum á átta dögum.

 

Karfan.is mun hita vel upp fram að móti og telja niður dagana til að stytta biðina. Þennan daginn ætlum við að minnast sigurs Íslands á Smáþjóðaleikunum í Monakó árið 2007. Þá mætti Ísland Kýpur í hreinum úrslitaleik um sigur á mótinu. Sökum undangenginna úrslita þurfti Kýpur að vinna leikinn með 17 stigum eða fleirum til að ná í gullið. Þegar um ein og hálf mínúta var eftir var Ísland hinsvegar búið að saxa mun sem Kýpur hafði byggt upp fyrr í leiknum niður í sex stig, 72-78, og átti því sigur vísan á mótinu.

 

Samkvæmt Guðmundi Hallgrímssyni á Morgunblaðinu breyttu leikmenn Kýpur þá leiknum í hálfgert stríðsástand. Allt byrjaði það með því að leikmaður þeirra sendi stuðningsmönnum og leikmönnum Íslands fingurinn, en endaði með barsmíðum þar sem að meðal annarra Magnús Þór Gunnarsson, Brenton Birmingham og dómarar leiksins fengu að finna duglega fyrir því.

 

Leikurinn var flautaður af og Íslandi dæmdur 2-0 sigur. Liði Kýpur var hinsvegar sparkað úr keppninni. Íslenska liðið þurfti svo lögreglufylgd út úr íþróttahúsinu og uppí rútu. Auk þess var ekki hægt að halda hefðbundna verðlaunaafhendingu vegna látanna og var því gripið til þess að Albert Prins af Mónakó afhendi Ólafi Rafnssyni heitnum alla verðlaunapeningana. Við landamæri Mónakó og Frakklands var rúta liðsins stoppuð og liðinu veitt viðurkenning auk þess sem íslenski hópurinn söng þjóðsönginn.

 

Þrír leikmenn eru í landsliðshópnum í dag sem léku þennan leik, þeir Brynjar Þór Björnsson, Logi Gunnarsson auk þess sem Hörður Axel Vilhjálmsson var að leika sína fyrstu leiki.

 

Hérna er hægt að lesa meira um þetta

Hérna er meira um Smáþjóðaleikana 2007

 

Heimild / Morgunblaðið 10. júní 2007.

Mynd / KKÍ – myndin er frá 2006

Fréttir
- Auglýsing -