Fyrstu leikir 8-liða úrslitanna í Konungsbikarnum á Spáni fóru fram í kvöld. Jón Arnór Stefánsson og CAI Zaragoza fengu þá skell á útivelli gegn Caja Laboral og eru því úr leik. Topplið ACB deildarinnar, Real Madrid, féll einnig úr leik í kvöld gegn erkifjendunum í Barcelona.
Lokatölur í viðureign Caja Laboral og Zaragoza voru 88-64 Caja Laboral í vil. Jón Arnór lék í tæpar 12 mínútur í leiknum en skoraði ekki. Stigahæstur hjá Zaragoza var Pablo Aguilar með 23 stig og 3 fráköst. Hjá Caja Laboral var, eins og Haukur Helgi spáði, Svíinn Maciej Lampe stighaæstur með 17 stig og 3 fráköst.
Börsungar komust áfram í keppninni eftir hörku útisigur gegn Real Madrid 108-111. Pete Mickeal fór fyrir Barcelona með 26 stig og 4 fráköst og Ante Tomic bætti vði 20 stigum og 11 fráköstum. Hjá Real Madrid var Sergio Llull með 23 stig og 4 stoðsendingar.
Caja Laboral og Barcelona halda því áfram í keppninni en á morgun eigast við:
Valencia-Asefa Estudiantes
Gran Canaria-Bilbao Basket
Þá ber einnig að geta þess að Jón Arnór Stefánsson varð í kvöld fyrsti Íslendingurinn sem keppir í Konungsbikarnum á Spáni!



