Þeir Haukur Helgi Pálsson og Jón Arnór Stefánsson voru á ferðinni í ACB deildinni á Spáni um helgina. Haukur Helgi var í sigurliði Manresa á meðan Jón Arnór og Zaragoza máttu þola tap á útivelli gegn toppliði deildarinnar.
Jón Arnór Stefánsson og CAI Zaragoza lágu gegn toppliði Unicaja um helgina 79-57 á útivelli. Jón lék í rúmar tvær mínútur í leiknum og náði ekki að skora og eftir tapið er Zaragoza í 13. sæti deildarinnar en hefur leikið einum leik færri en flest önnur lið deildarinnar þar sem fyrsta leik þeirra á tímabilinu var frestað.
Assignia Manresa hafði góðan 69-60 heimasigur á Gran Canaria þar sem Haukur Helgi Pálsson var ekki í byrjunarliðinu. Haukur lék í tæpar fimm mínútur og náði, rétt eins og Jón, ekki að komast á blað í stigaskorinu. Eftir sigurinn um helgina er Manresa í 4. sæti deildarinnar með 3 sigra og 1 tapleik.