spot_img
HomeFréttirYngvi: Rúsínan í pýlsuendanum að fá að fylgjast með þessum flottu liðum...

Yngvi: Rúsínan í pýlsuendanum að fá að fylgjast með þessum flottu liðum kljást

Yngvi Páll Gunnlaugsson gjörþekkir kvennaboltann á Íslandi og því ekki úr vegi að taka púlsinn á Yngva áður en úrslitaeinvígi Njarðvíkur og Hauka hefst í Ljónagryfjunni í kvöld. Það er andlegur styrkur Hauka sem hrífur Yngva en breidd Njarðvíkinga ætti að vera ívið meiri að hans sögn.
Hvernig leggst einvígið í þig og við hverju býst þú í þessu einvígi?
“Þessi rimma er lýsandi fyrir deildina í vetur, óvænt og óútreiknanleg. Fáir hefðu búist við þessum liðum í úrslit, en flestir hafa örugglega búist við Keflavík, KR eða jafnvel Val í úrslit fyrir tímabilið, þar á meðal ég sjálfur. Haukar hafa unnið alla leiki sína örugglega, að undanskildum leik 2 gegn Keflavík, eftir að Tierny Jenkins kom til liðs við þær. Njarðvík hafa hins vegar verið að spila jafnari leiki undanfarið, 10 af síðustu 11 leikjum þeirra hafa ráðist með minna en 10 stiga mun. Ég býst við jöfnum leikjum og það verður enginn svikinn með leik þessara frábæru liða.
 
Styrkleikar og veikleikar liðanna?
Andlegur styrkur Hauka er það sem hrífur mig. Það er súrt að sjá á eftir Guðrúnu Ámunda og Írisi Sverrisdóttur í meðsli en það ætti samt að gefa Haukum meiri hvatningu og samkennd að vilja vinna titilinn fyrir þær sérstaklega. Jence Rhoads er búin að vera frábær í allan vetur, hún tekur það góðar ákvarðanir og það njóta sín allir í kringum hana. Tierny Jenkins hefur fært Haukum aukið jafnvægi í teignum bæði í sókn og vörn en þar fyrir utan hafa Haukarnir einn besta unga leikmann deildarinnar í Margéti Rósu sem og Gunnhildur Gunnarsdóttir er að stíga upp úr meiðslum á hárréttum tíma. Breidd Haukanna er hins vegar ekki mikil eftir brotthvarf Guðrúnar og Írisar en þó eru minni spámenn sem eru góðir liðsmenn og þurfa skila sínu þegar á er kallað. Að sama skapi hefur breidd og reynsla Njarðvíkur aukist með tilkomu Ingibjargar Elvu Vilbergsdóttur, þrátt fyrir skort á leikæfingu þá dylst engum að hún hjálpar liðinu mikið. Hardy og Baker-Brice eru sem fyrr prímusmótorar liðsins og munu eflaust skila sínu sem og Petrúnella Skúladóttir sem hefur átt sitt besta tímabil hingað til. Breidd Njarðvíkur ætti að vera ívið meiri en Haukanna og gæti það riðið baggamuninn í langri úrslitakeppni. Ólöf Helga Pálsdóttir er vanmetinn leikmaður og einnig er tækifæri fyrir Ínu Maríu að eiga gott mót. Þrátt fyrir allt þá eru bekkir liðanna að skila litlu sem engu sóknarlega upp á síðkastið og því er mikivægt að byrjunarliðin standi sig vel.
 
Hvort liðið fer sigurstranglegra inn í þessa baráttu?
Njarðvík ætti að vera sigurstranglegri, liðið var í öðru sæti deildarinnar og sýndi mikinn stöðugleika í allan vetur. Einnig hafa þær spilað mikið af jöfnum leikjum undanfarið og unnið þá flesta og það er gott að búa að slíkri reynslu þegar á hólminn er komið. Haukar hafa farið á flug síðan Tierny kom og síðan þá eru þær með besta varnarliðið. Ef Haukar ná að stilla vörnina saman líkt og þær hafa gert undanfarið þá eru þær mjög líklegar. Pressan er allavega mun meiri á Njarðvík en Haukum.
 
Heimavöllurinn er Njarðvíkurmegin, mun það vega þungt í seríunni?
Það er enginn leyndardómur að heimavallarrétturinn er það sem liðin sækjast eftir en sögulega er það yfirleitt liðið sem vinnur leik 3 sem stendur uppi sem sigurvegari. Tölfræðin er líka með Njarðvík, en það lið sem hefur haft heimvallarétt í lokaúrslitum kvenna stendur yfirleitt uppi sem sigurvegari.
 
Þjálfararnir, hvernig koma þeir þér fyrir sjónir svona á lokaspretti tímabilsins?
Þeir eiga mikið hrós skilið, Bjarni hefur náð miklu út úr Haukunum, allir leikmenn virðast njóta sín til hins ítrasta og leikgleðin skín af þeim. Taktískt eru Haukarnir vel undirbúnir og þekkja sín hlutverk og má segja að Bjarni sé að ná því besta út úr þeim á réttum tíma. Sverrir hefur tekið meistaraflokk kvenna hjá Njarðvík á næsta stig eftir að Unndór Sigurðsson kom þeim upp á undan áætlun á sínum tíma. Sverrir hefur smitað liðið af metnaði sínum og krafti og er hreint ótrúlegt að hugsa til þess að liðið var í næst efstu deild fyrir nokkrum árum síðan.
 
Að lokum vil ég þakka fyrir frábæra deild í vetur og er þetta rúsínan í pýlsuendanum að fá að fylgjast með þessum flottu liðum kljást um Íslandsmeistaratitilinn. Góða skemmtun.”
 
  
Fréttir
- Auglýsing -