spot_img
HomeFréttirYngvi Gunnlaugsson: Ég er í draumastarfinu

Yngvi Gunnlaugsson: Ég er í draumastarfinu

Valsmenn sitja eftir í 1. deildinni enn eitt árið en í þetta skipti nánast með nýjan mannskap. Valsmenn börðust fyrir sínu í leiknum í kvöld en það dugði ekki til. ,,Haukar eru bara með hörku lið,” sagði Yngvi og hélt áfram. ,,Ég held að við höfum sýnt okkar rétta andlit í dag frekar en á sunnudaginn. Það má kannski segja að við höfum tapað seríunni á sunnudaginn með því að hafa ekki mætt svona þá. Ég er rosalega stoltur af strákunum. Fyrsta árið sem þessi hópur er saman. Haukar eru með stráka sem hafa verið að spila saman í fleiri fleiri ár í yngri flokkunum og þeir eru vel að þessu komnir.”
Valsmenn voru ekki að skjóta vel fyrir utan þriggja stiga línuna og þegar verst var höfðu þeir aðeins nýtt 2 skot af 19 tilraunum. ,,Það var auðvitað bara lykillinn að leiknum, en að sama skapi voru Haukarnir að hitta illa af vítalínunni, sérstaklega í fyrri hálfleik, svo kannski má segja að þetta hafi jafnast út. Þetta var bara hörku leikur og kannski synd að sunnudagurinn hafi ekki verið betri af okkar hálfu.”
 
Yngvi var ákveðinn á því að hann yrði áfram hjá Val á næsta ári ,,Já, ég gerði langtímasamning. Ég er í draumastarfinu og myndi ekki vilja vera að þjálfa neitt annað lið heldur en Val.”
 
Gísli Ólafsson
 
Fréttir
- Auglýsing -