spot_img
HomeFréttirÝmislegt að ganga upp á þessu 85 ára afmæli

Ýmislegt að ganga upp á þessu 85 ára afmæli

„Við í Haukum erum vitaskuld afar ánægð enda stefndum við í úrslit með bæði karla- og kvennalið félagsins. Eðlilega þegar þú ert kominn í úrslit ætlar þú þér svo titilinn“ sagði Kjartan Freyr Ásmundsson formaður KKD Hauka í samtali við Karfan.is í dag. Síðustu tveir sólarhringar hafa verið viðburðaríkir í ranni Hauka en Kjartan sem er á sínu öðru ári sem formaður deildarinnar segir virkilega gott og öflugt fólk starfa hjá Haukum.

„Karlamegin höfum við reynt að byggja á okkar fólki og svo fyllt inn í jöfnuna með einstaklingum eins og Finni Atla Magnússyni sem hefur reynst okkur gríðarlega vel innanvallar sem utan. Stuðningsmenn eiga hrós skilið og hafa verið mjög mikilvægir í síðustu leikjum. Þá hafa þjálfararnir okkar sýnt það og sannað að þeir eru sannarlega í fremstu röð,“ sagði Kjartan og var sömuleiðis ánægður með leikmenn liðanna.

 

„Bæði liðin okkar efldust við mótlætið, karlaliðið við fjarveru Kára, Hjálmars og Mobley og kvennaliðið að lenda 2-0 undir í einvíginu gegn Grindavík. Þessi karakter hjá liðunum rennir því ennfrekari stoðum undir að við séum að tefla fram hörku liðum. Á þessu 85 ára afmæli Hauka er ýmislegt að ganga upp og vonandi náum við að nýta okkur þann skriðþunga sem er með Haukaliðunum í dag,“ sagði Kjartan en síðustu tvo sólarhringa komust karla- og kvennalið félagsins í úrslit Domino´s-deilanna og Haukar fögnuðu 85 ára afmæli sínu.

 

Tal okkar við Kjartan barst að úrslitum og aðspurður um hvort Haukar væru færir um að fylla hina stóru DB Schenkerhöll sagði Kjartan. „Við fyllum völlinn, það er bara þannig! Við höfum ekki viljað hækka miðaverðið í úrslitakeppninni og munum að öllum líkindum ekki hækka það á leikina í úrslitum enda nóg til af sætum og aðeins okkar hlutur að fylla þau.“

 

Það gengur á ýmsu í íþróttum og Haukar hafa fengið sinn skerf af því á tímabilinu. „Yfirhöfuð er búið að ganga mjög vel í vetur og við höfum sem betur fer ekki látið mótlætið setja okkur út af sporinu, stefnan er klár og við ætlum okkur alla leið“ sagði Kjartan sem staddur var í Síkinu í gær þegar Haukar sendu Tindastól í sumarfrí.

 

„Ég vil koma á framfæri sérstöku þakklæti til stuðningsmanna Hauka og líka Tindastóls. Rimman var vinaleg, skemmtileg og jákvæð og starfið í Skagafirði er glæsilegt og þeirra aðkoma að seríunni íþróttinni til mikils framdráttar,“ sagði Kjartan en það er ekki bara árangurinn hjá Haukum sem er ánægjulegur á 85 ára afmæli félagsins því í gær var tekin fyrsta skóflustungan að nýju æfingahúsnæði sem rísa mun við Schenkerhöllina.

 

„Í fyrstu erum við að ræða um æfingasal en þarna verða svalir í fyrsta áfanganum á annarri langhlið hússins en til lengri tíma litið verða þarna áhorfendabekkir á öllum hliðum, ekki ósvipað og að Hlíðarenda en minni völlur og meiri gryfja,“ sagði Kjartan.

 

Myndu þá einhverjir segja að þarna yrði nú réttnefnt Ólafshús á frumstigi!

Fréttir
- Auglýsing -