spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Yfirlýsing KKÍ: KKÍ hefur bæði innan FIBA Europe og FIBA ítrekað beitt...

Yfirlýsing KKÍ: KKÍ hefur bæði innan FIBA Europe og FIBA ítrekað beitt sér gegn ákvörðun þess að leyfa Ísrael að taka þátt

Rétt í þessu sendi KKÍ frá sér yfirlýsingu varðandi leik Íslands gegn Ísrael á EuroBasket 2025.

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér fyrir neðan, en meðal annars segir í henni að sambandið hafi ítrekað beitt sér gegn þeirri ákvörðun FIBA að leyfa Ísrael að taka þátt í mótinu.

Yfirlýsing KKÍ

Vegna spurninga og umræðna í ljósi þess að fyrsti leikur íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik á EuroBasket fer fram gegn Ísrael telur KKÍ rétt að afstaða sambandsins komi fram.

Þátttaka landsins á mótinu er á forræði FIBA Europe og FIBA sem einnig stendur fyrir niðurröðum í riðla og leiki. Þjóðir sem taka þátt hafa eðli málsins samkvæmt ekkert um val á mótherjum að segja. Á meðan IOC (Alþjóðlega Ólympíuhreyfingin) bannar ekki þátttöku Ísraela þá er veik von um að FIBA Europe, FIBA eða önnur helstu álfu/heimssambönd íþróttahreyfingarinnar banni þáttöku Ísraela, eins og staðan er núna.

Rétt er að fram komi að KKÍ hefur bæði innan FIBA Europe og FIBA ítrekað beitt sér gegn ákvörðun þess að leyfa Ísrael að taka þátt í mótum að svo stöddu og mun áfram gera.

KKÍ telur ekki rétt að hætta við þátttöku á EuroBasket.

Ákvarðanir á borð við að hafna því að spila leik á mótinu myndu hins vegar hafa í för með sér fyrirvaralausa brottvísun úr keppni auk hárra fjársekta og mögulegt bann við þátttöku í komandi stórmótum á borð við EuroBasket og heimsmeistaramót.

KKÍ fordæmir að sjálfsögðu allt ofbeldi og mannréttindabrot hvar og hvernig sem þau birtast. Íþróttir eru vettvangur til að byggja brýr og tengja samfélög, þær geta líka verið tækifæri til að vekja umræðu. Ljóst er að slíkt gerist þó ekki með því að hætta þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Önnur landslið í keppnisíþróttum á Íslandi og erlendis hafa tekið sömu eða svipaða afstöðu.

Fréttir
- Auglýsing -