spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaYfirlýsing frá Körfuknattleiksdeild Þórs vegna ásakana um veðmálasvindl

Yfirlýsing frá Körfuknattleiksdeild Þórs vegna ásakana um veðmálasvindl

Hávær orðrómur fór af stað í gær þess efnis að leikmaður Þórs Akureyri Srdjan Stjojanovic væri flæktur í veðmálasvindl er varðaði leik félagsins gegn Njarðvík í 20. umferð Dominos deildar karla. Þetta var að sjálfsögðu eins og svo oft er með orðróma, algjörlega óstaðfest, en var þó á allra vörum fyrir leik og frameftir degi.

Þór Akureyri tapaði leiknum nokkuð örugglega fyrir Njarðvík, 97-75, en Srdjan skilaði nokkuð góðu framlagi í leiknum, 17 stigum úr 12 skotum. Orðrómurinn fékk samt sem áður að halda áfram eftir leik í hlaðvarpinu The Mike Show, þar sem talað var um að gengið hefði verið á leikmanninn á fundi fyrir leik og hann inntur um svör við þessu hugsanlega veðmálasvindli sem hann var flæktur í.

Hérna er hægt að hlusta á brot úr þættinum og svar Srdjan við ásökununum

Þór Akureyri hefur nú sent frá sér yfirlýsingu sem lesa má hér fyrir neðan, en í henni er ásökunum vísað á bug.

Yfirlýsing:

Við stöndum með leikmönnum liðsins og hvetjum alla þá viðeigandi aðila, sem völd hafa til að rannsaka meint veðmálasvindl, til að leggja fram sönnunargögn og/eða rannsaka málið frekar. Félagið mun að sjálfsögðu aðstoða eftir bestu getu. Félagið telur að ekki hafi verið neitt gruggugt í gangi hjá neinum leikmanna liðsins. Leikurinn var vissulega afar slakur af okkar hálfu en benda má á að leikir hafa tapast með mun stærri mun og á mun óvæntari hátt í þessari deild í vetur .

Að nafngreina og ásaka leikmann opinberlega í fjölmiðlum án þess að hafa fyrir sér nokkur sönnunargögn kallar á að viðkomandi einstaklingur muni leita réttar síns með tilliti til meiðyrðamáls enda ásökunin grafalvarleg og ætti ekki á nokkurn hátt að vera tekið léttvægt.

Um leið og við fögnum umfjöllun um körfubolta þá viljum við að sjálfsögðu að fagmennsku sé gætt og slíkt verður ekki á nokkurn hátt hægt að segja að hafi verið raunin með ummælum Huga Halldórssonar í þættinum The Mike show í gær. Félagið vísar þessum ásökunum algjörlega á bug, og má við þetta bæta að enginn fundur átti sér stað fyrir leik með þeim leikmanni sem var nafngreindur, né öðrum leikmönnum. Þór stendur eins og áður sagði eindregið með leikmönnum sínum og væntir þess að þeir svari fyrir sig af alvöru á vellinum.

Fréttir
- Auglýsing -