Zoran Vrkic hefur samið við Hauka fyrir komandi leiktíð í fyrstu deild karla. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum nú í morgun.
Zoran er 37 ára, 203 cm framherji frá Króatíu og lék með Breiðablik á síðasta tímabili, en áður lék Zoran með Tindastól og Grindavík hér á landi. Zoran hefur mikla reynslu á bakinu en hann hefur leikið í sterkum efstu deildum á Spáni og í Grikklandi, Euroleague og Eurocup auk heimalandsins Króatíu.
Zoran í fréttatilkynningu Hauka: “Ég er mjög ánægður að hafa gert samning við Hauka og hlakka til að spila þeim í uppáhalds salnum mínum á Íslandi. Strákarnir í liðinu hafa tekið mér mjög vel og ég finn strax fyrir góðum anda í liðinu sem og hæfileikum”.
Pétur Ingvarsson þjálfari liðsins hafði þetta að segja: “Zoran er þekkt stærð í körfuboltaheiminum og ég er mjög ánægður að hafa náð honum til okkar. Hann hefur spilað á mjög háu stigi í Evrópu og mun því bæta hópinn á mikilvægum sviðum, bæði hvað varðar reynslu og hæð og fellur vel að mínum plönum með liðið.”



