spot_img
HomeFréttirYfirburðir KR í fyrsta leikhluta dugðu til sigurs

Yfirburðir KR í fyrsta leikhluta dugðu til sigurs

 
Topplið KR tók á móti Breiðablik í Vesturbænum í kvöld. Það var ljóst frá fyrstu mínútum að KR ætlaði ekki að gefa tommu eftir og virtist það slá gestina út af laginu. Strax eftir fyrsta leikhluta var forskot heimamanna orðið 19 stig og eftir það komust Blikar ekki nær en 15 stig. KR setti svo aftur í fluggírinn í fjórða leikhluta og uppskáru 24 stiga sigur, 96-72.
Stigahæstur í liði KR var Brynjar Björnsson, sem samkvæmt óstaðfestum heimildum tróð sínum fyrsta bolta í opinberum leik í kvöld, með 25 stig en næstir voru Morgan Lewis með 24 stig og Pavel Ermolinskji með 14 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar. Hjá Breiðablik var Jonathan Schmidt stigahæstur með 23 stig en næstir voru Ágúst Angantýnsson með 14 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson með 13 stig.
 
Það byrjaði ekki vel fyrir gestina úr Kópavoginum og þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður höfðu þeir aðeins skorað 4 stig gegn 11 stigum heimamanna. KR var að pressa Blikana hátt og gerðu þeim mjög erfitt fyrir. Það leið því ekki á löngu þar til þjálfarateymi Breiðabliks tók leikhlé. Heimamenn nýttu sér það hins vegar þeim mun betur og þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum hafði KR náð 14 stiga forskoti, 20-6. Þar af eina mögnuðustu “Alley-oop” tröðslu sem undirritaður hefur séð, þegar Darri Hilmarsson sendi boltann, úr innkasti, á Morgan Lewis sem tróð snyrtilega yfir leikmann Breiðabliks og uppskar víti í þokkabót. Heimamenn keyrðu hratt á gestina allan leikhlutann og þegar fyrsta leikhluta var lokið var forskot KR komið upp í 19 stig, 29-10.
 
Breiðablik virtist mæta beittari til leiks í annan leikhluta og höfðu skorað 7 stig þegar þrjár mínútur voru liðnar af honum gegn þremur stigum heimamanna. KR-ingar voru hins vegar fljótir að refsa og höfðu náð forskotinu aftur upp í 19 stig stuttu seinna þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður, 40-21. Breiðablik tókst að mæta hröðum leik heimamanna í öðrum leikhluta og unnu annan leikhluta með þremur stium, 26-23. Það munaði því 16 stigum þegar flautað var til hálfleiks, 52-36.
 
Brynjar Björnsson fór á kostum fyrir heimamenn og hafði skorað heil 18 stig þegar leikurinn var hálfnaður. Næstir á blað voru Fannar Ólafsson með 10 stig og Morgan Lewis með 9 stig. Hjá Breiðablik voru Jonathan Schimdt og Þorsteinn Gunnlaugsson með 9 stig hvor.
 
Breiðablik mætti einbeittara til leiks í þriðja leikhluta og höfðu minnkað muninn niður smám saman með ágætis varnarleik. Þeim gekk þó verr að koma stigunum á töfluna og tókst því ekki að minnka muninn sem skyldi. Það munaði minnst 15 stigum á liðunum í þríðja leikhluta, 67-52, en nær komust gestirnir ekki. Það voru hins vegar heimamenn sem áttu seinustu 4 stig leikhlutans og höfðu því aftur náð 19 stiga forskoti þegar þriðja leikhluta lauk, 71-52.
 
KR-ingar settu í fluggírinn í fjórða leikhluta og bættu smátt og smátt við forskotið. Leikhlutinn spilaðist grunsamlega líkt þeim fyrsta og þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu Blikar aðeins skorað 7 stig gegn 14 stigum heimamanna og munurinn á liðunum var því kominn upp í 26 stig, 86-59. Pavel Ermolinskji og Morgan Lewis fóru á kostum fyrir heimamenn og ljóst er að Vesturbæingar munu ekki sjá eftir þeim breytingum í bráð. Á lokamínútunum gáfu báðir þjálfarar minni spámönnum tækifæri og breyttist leikurinn töluvert við það. Það var þó löngu ljóst hvoru megin stigin lentu og sigldu heimamenn sigrinum heim, 96-72.
 
 
Texti: Gísli Ólafsson
Ljósmyndir: [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -