spot_img
HomeFréttirYfirburðasigur Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni

Yfirburðasigur Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni

Væntingar um spennuslag milli toppliðanna Njarðvíkur og Þórs frá Þorlákshöfn voru talsverðar fyrir kvöldið. Þær voru allar kveðnar í kútinn snemma leiks í Ljónagryfjunni þar sem Njarðvíkingar höfðu tögl og hagldir á leik kvöldsins. Lokatölur reyndust 103-76 þar sem framlagið kom nánast úr öllum áttum hjá Njarðvík á meðan það tók Þórsara um það bil hálftíma að berja niður þriggja stiga skot! Sem toppslagur voru þetta auðvitað vörusvik en að sama skapi magnaður yfirburðasigur Njarðvíkinga.

Ljónin fóru betur af stað í kvöld. Milka og Maciej frískir við upphaf leiks og þegar sá síðarnefndi skoraði þrist og kom Njarðvík í 17-6 ákvað Lárus að taka leikhlé fyrir Þórsara eftir fimm mínútna leik.

Maciej lét ekki leikhlé úr Þorlákshöfn trufla sig og kom aftur á parketið og bætti við tveimur þristum til viðbótar og kom Njarðvík í 25-10 og þarna var kappinn 4-4 í þristum.

Þorvaldur Orri kom inn í sínar fyrstu leikmínutur fyrir Njarðvík í fyrsta leikhluta og greinilega innblásin af hittni Maciej því hans fyrstu stig sem ljón voru úr þriggja stiga körfu sem kom Njarðvík í 33-16 og staðan var svo 35-17 að loknum fyrsta leikhluta. Heldur betur völlur á heimamönnum fyrstu tíu mínúturnar þar sem Maciej var með 14 stig og Milka 13 en hjá Þór var Semple með 6 stig.

Gestirnir bættu ráð sitt í vörninni í upphafi annars leikhluta og náðu að minnka muninn í 38-25. Þrátt fyrir yfirbót í vörninni þá voru skotin ekki að detta og eftir tæplega 15 mínútna leik voru þeir 0-10 í þristum. Leikur áhlaupa stóð skömmu síðar undir nafni og fimm stig í röð frá Njarðvík juku muninn í 43-25.

Lánleysi Þórsara fyrir utan þriggja stiga línuna hélt áfram og gengu þeir til búningsklefa í hálfleik 0-15 í þriggja stiga skotum og staðan 53-33 Njarðvík í vil. Heimamenn að leika fantavel og þó Þorvaldur Orri hafi verið að frumsýna sig í Njarðvíkurbúning virtist hann kominn mjög vel inn í hlutina og að tengja vel við liðið.

Eftir afbragðs fyrsta leikhluta skoruðu Milka og Maciej ekki í öðrum leikhluta fyrir Njarðvík. Þó stigahæstir heimamanna, Maciej 14 og Milka 13 í hálfleik en Semple með 11 stig hjá Þórsurum. 

Í toppslag hefðu flestir búist við að Þórsarar myndu koma dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik en sú var aldeilis ekki raunin. Eftir fimm mínútna leik í þriðja leikhluta með þrist frá Elíasi voru Njarðvíkingar komnir í 70-42 og Þórsarar með lygilega 0-17 „ónýtingu“ í þristum.

Þrautargöngu Þórsara í þriggjastiga skotum lauk svo þegar Fotios Lampropoulos minnkaði muninn í 70-49 og þá hafðist það loks, þristur í húsi í nítjándu tilraun og á þannig kvöldi vinnur enginn leik. Þorvaldur Orri kom stuttu síðar með tvo þrista fyrir Njarðvíkinga sem breyttu stöðunni í 81-51 og þriðja leikhluta lauk svo 83-53 og björninn unninn.

Það hefði verið gaman að skrifa um heljarstórt og myndarleg áhlaup og endurkomu hjá Þór en miðað við gang leiksins þá hefði slíkt bara átt heima í vísindaskáldsögu. Eitt að eiga slæman dag á skrifstofunni en allt annað og verra að vera með topplið sem heilan leik er fast í læstri hliðarlegu. Stutt saga leiksins, Njarðvík pakkaði Þór saman á öllum sviðum leiksins. Lokatölur 103-74.

Mario Matasovic lét vel til sín taka í síðari hálfleik og lauk leik með 21 stig og 13 fráköst. Milka lét sig ekki vanta í tvennufjörið með 19 stig og 14 fráköst og þá var Chaz með þriðju tvennu Njarðvíkinga 18 stig og 11 fráköst. Eftir frábæran fyrri hálfleik lauk Maciej Baginski svo kvöldinu með 17 stig og Þorvaldur Orri Árnason skilaði 15 stigum í frumraun sinni fyrir Njarðvík

Hjá Þór Þorlákshöfn voru Davis og Semple báðir með 16 stig og Semple 16 fráköst að auki. Heilt yfir vondur dagur fyrir Þórsara en að sama skapi glimrandi frammistaða Njarðvíkinga sem eiga meira að segja Carlos inni sem fylgdist með í borgaralegum klæðum í kvöld vegna meiðsla.

Tölfræði leiks

Gangur leiksins

17-6, 35-17

40-25, 53-33

70-42, 83-53

91-60, 103-76

Fréttir
- Auglýsing -