spot_img
HomeFréttirYao gæti lagt skóna á hilluna

Yao gæti lagt skóna á hilluna

Kínverski risinn Yao Ming gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Houston Rockets í NBA ef hann nær sér ekki fyllilega af fótmeiðslunum sem héldu honum frá keppni allan síðasta vetur.
 
"Ef fóturinn grær ekki á næsta ári gæti ég ákveðið að láta gott heita", sagði Yao.
Yao hefði getað sagt upp samningi sínum fyrir þetta tímabil, en ákvað frekar að vera áfram hjá Rockets.

 
Þrátt fyrir þennan fyrirvara er Yao engu að síður hóflega bjartsýnn og segir endurhæfinguna ganga vel. Hann vonast til að verða bráðlega kominn í að leika á móti öðrum leikmönnum og svo í fulla leiki um miðjan september og þannig til í tuskið þegar deildin fer í gang í október.
 
"Ég veit ekki hversu öruggur ég er, en mér hefur liðið nokkuð vel með þær æfingar sem ég hef verið í á vellinum hingað til. Ég er nokkuð öruggur með allt það."
 
Honum líst vel á Houston liðið eins og það lítur nú út eftir nokkrar mannabreytingar síðustu misseri, en segir framtíð sína með landsliðinu í vafa.
 
Eins og frægt er orðið hefur Yao lagt mikið á sig og verið allt að því þrælað út fyrir landsliðið þar sem öll sumur hafa farið í strangar æfingabúðir. Er það talið öðru fremur hafa ollið meiðslavandræðum hans síðustu ár, en hann hefur ekki leikið heilt tímabil síðan 2005. Honum gekk allt í haginn tímabilið 2008-2009, en meiddist á fæti í úrslitakeppninni og hefur ekki leikið síðan.
 
Yao gagnrýnir forystu kínverska körfuknattleiksins fyrir skammsýni þar sem ofuráhersla á ÓL 2008 olli vanrækslu í öðrum þáttum og er liðið nú ekki svipur hjá sjón.
 
Víst er að margir bíða spenntir eftir að sjá hvernig hinum þrítuga Yao, sem er 228 sm á hæð, reiðir af, enda er hann einn þekktasti íþróttamaður í heimi.

Mynd: Yao Ming og Brad Miller, sem verður varamaður hans í vetur.
Fréttir
- Auglýsing -