spot_img
HomeFréttirWNBA deildin hefst í kvöld!

WNBA deildin hefst í kvöld!

Í kvöld verða fyrstu leikir sumarsins í WNBA deildinni spilaðir þegar Atlanta Dream taka á móti Dallas Wings og New York Liberty bjóða Indiana Fever í heimsókn. Það sem eftir líður sumars verða að jafnaði einn til þrír leikir spilaðir á dag.

Auðveldasta og ódýrasta leiðin til að fylgjast með deildinni er að fjárfesta í aðgangi að „League Pass“ þar sem hægt er að horfa á alla leikina út tímabilið, bæði í beinni og eftir á. Aðgangurinn kostar aðeins 16,99 dollara eða litlar 2100 krónur fyrir allt tímabilið.

Þá verða valdir leikir einnig sýndir á ESPN, CBS og þó nokkrir verða í beinni útsendingu á Twitter.

Áhugasamir eru einnig hvattir til þess að ná sér í WNBA appið. Þar er hægt að fylgjast með fréttum, finna leikjadagskrá, skoða lifandi tölfræði og fleira. Aðganginn að League Pass er hægt að tengja appinu og því auðvelt að fylgjast með leikjum í snjalltækinu á ferðinni.

Nú er engin afsökun fyrir körfuboltaáhugamenn að vera eirðarlausir og leiðast á sumrin þegar hægt er að fylgjast með leikjum í atvinnumannadeild í allt sumar, fyrir nokkrar krónur á dag.

League Pass

Leikjadagskrá

WNBA appið

Nýjasta liðinu í deildinni, Las Vegas Aces, er spáð titlinum í ár. Liðið datt í lukkupottinn þegar hin ástralska Liz Cambage kom til liðsins í stórtækum skiptum, rétt fyrir gluggalok. Cambage er með bestu leikmönnum deildarinnar og setti til að mynda met í stigaskori á síðasta tímabili þegar hún skoraði 53 stig í einum leik. Hin sívinsæla Elena Delle-Donne er hins vegar talin líklegust til að vera valin mikilvægasti leikmaður deildarinnar og Asia Durr eða Arike Ogunbowale eru undir smásjánni sem nýliðar ársins.

Allt stefnir í spennandi og jafna deild og því um að gera að næla sér í aðgang að League Pass og fylgjast með!

Umfjöllun / Hanna Þráinsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -