spot_img
HomeFréttirWin or go home!

Win or go home!

Kristófer Acox var á dögunum valinn í „Second-Team“ í Southern Conference riðlinum fyrir framgöngu sína þetta tímabilið með Furman. Liðsfélagi hans Devin Sibley var valinn leikmaður ársins í riðlinum og þjálfari Furman, Niko Medved, var valinn þjálfari ársins í riðlinum.

Furman urðu sameiginlegir meistarar í SoCon riðlinum þar sem þrjú lið enduðu jöfn og efst og í kvöld hefst sjálft fjörið, úrslitakeppnin í SoCon-riðlinum. Furman situr hjá fyrstu umferð og leikur sinn fyrsta leik á morgun, laugardag. Í leikjum kvöldsins mætast The Citadel og Westeren Carolina og svo VMI og Samford en úrslitakeppni riðilsins fer fram í Asheville í Norður-Karólínu.

Mikið mun mæða á Kristófer í úrslitakeppninni eins og allt þetta tímabil en á leiktíðinni var hann með 13 stig og 7,3 fráköst að meðaltali í leik en bætti sig í riðlakeppninni og var þar nánast með tvennu á leik eða 14,6 stig og 7,8 fráköst og skilað alls átta tvennum í riðlinum. Þá leiddi Kristófer SoCon-riðilinn í teignýtingu með 68,2%! Karfan.is ræddi við Kristófer um framhaldið, okkar maður sagði Furman í bullandi séns.

„Við höfum unnið öll liðin í riðlinum þetta tímabilið þannig að við erum í bullandi séns eins og er, þetta er samt bara „win or go home“ þannig að allt getur gerst,“ sagði Kristófer sem hefur góða tilfinningu fyrir úrslitakeppninni.

„Þegar við spilum eins og við eigum að gera erum við klárlega með besta liðið. Maður þarf samt bara að hitta á einn lélegan leik og þá er maður kominn í frí.“

Þá var bara komið að aðalspurningunni – er raunhæft að Furman stefni á 64-liða úrslit, sjálft March Madness?

„Já að sjálfsögðu! Það eru samt fjögur lið sem eiga möguleika, við ETSU, UNCG og Chattanooga. Við skiptum öll deildarleikjunum okkar jafnt á milli liðanna en það fer auðvitað bara eitt lið áfram úr okkar riðli þannig að við þurfum að vinna þrjá leiki til að komast í gegn,“ sagði Kristófer.

Staðan á hópnum er góð, Furman missti samt einn af stóru leikmönnum sínum í janúar en hafa unnið 11 leiki án hans svo Kristófer sagði hópinn að því leiti heilann og tilbúinn í slaginn.

Fréttir
- Auglýsing -