Fjórðungsúrslit NBA deildarinnar hófust í gær með leikjum Washington Wizards gegn Atlanta Hawks og Memphis Grizzlies gegn Golden State Warriors.
Wizards stálu heimavellinum af Hawks í Atlanta með mikilvægum 104-98 sigri, en misstu bakvörðinn Bradley Beal út af eftir að hann snéri ökkla í 3. hluta. Beal leiddi Wizards í stigaskorun með 28 stig. John Wall, leikmaður Wizards og Jeff Teague, leikmaður Hawks meiddust einnig í leiknum en spiluðu þó áfram. Demarre Carroll skoraði mest fyrir Hawks með 24 stig.
Ekkert virðist geta stöðvað Golden State Warriors hraðlestina þessa dagana, en Steph Curry og félagar rúlluðu nokkuð auðveldlega yfir öfluga Memphis Grizzlies vörnina. Warriors sigruðu 101-86 á gríðarlega sterkum heimavelli sínum. Curry leiddi sína menn með 22 stig og 7 stoðsendingar en Marc Gasol og Zach Randolph drógu hálf máttlausan Grizzlies vagninn með 21 og 20 stig.
Chicago Bulls mæta Cleveland Cavaliers í kvöld auk þess sem Houston Rockets taka á móti Los Angeles Clippers.
Mynd: Sports Illustrated



