spot_img
HomeFréttirWalker og Sani stigahæstir í einvíginu

Walker og Sani stigahæstir í einvíginu

14:38
{mosimage}

 

(Bobby Walker er með 21,0 stig að meðaltali í síðustu fjórum leikjum) 

 

Einhver spekingurinn sagði að það væri óráðlegt að breyta sigurformúlu og sé gengið út frá þessum vísdómsorðum mæta Keflvíkingar með óbreytt byrjunarlið í Toyotahöllina í kvöld en hver veit nema ÍR-ingar geri breytingar á sínu byrjunarliði eftir tvær rassskellingar í röð. Bandaríkjamaðurinn Bobby Walker hefur verið stöðugur í stigaskorinu fyrir Keflavík með 21,0 stig að meðaltali í leik í þessum fjórum undanúrslitaleikjum. Tahirou Sani hefur verið að skora mest í liði ÍR með 16,0 stig að meðaltali í leik.

 

Þó er ekki líklegt að ÍR-ingar fari að gera breytingu á hópnum hjá sér nema ef ske kynni að Ómar Sævarsson eða Ólafur J. Sigurðsson dyttu inn í byrjunarliðið fyrir þá Hreggvið eða Eirík en svona teljum við á Karfan.is að byrjunarliðin verði í kvöld.

 

Líkleg byrjunarlið í kvöld og meðalskor leikmanna í undanúrslitum

 

ÍR 

Nate Brown 14,75

Eiríkur Öndunarson 8,25

Sveinbjörn Claessen 14,5

Hreggviður Magnússon 11,75

Tahirou Sani 16,0

 

Keflavík 

Bobby Walker 21,0

Arnar Freyr Jónsson 9,0

Magnús Þór Gunnarsson 11,5

Gunnar Einarsson 5,5

Anthony Susnjara 5,0

 

{mosimage}

(Sani er með 16 stig að meðaltali í síðustu fjórum leikjum)

 

Sé tekið mið af ofangreindum byrjunarliðum þá gerir byrjunarlið ÍR að jafnaði 65,25 stig að meðaltali í leik en þetta byrjunarlið Keflavíkur gerir aðeins 52 stig að meðaltali í leik. Framlag bekkjarins hjá Keflavík hefur verið mun hærra en hjá ÍR og þar skiptir sköpum að Tommy Johnson var hent á bekkinn eftir tvo fyrstu leikina þar sem hann var bara fyrir. Í leikjum 3 og 4 fór maðurinn á kostum og því má fastlega gera ráð fyrir því að Tommy byrji á bekknum í kvöld og komi með baráttuöldu inn í liðið snemma í fyrsta leikhluta. Slíkt hið sama mun Þrumu Þröstur gera hjá Keflavík en pilturinn hefur blómstrað í síðustu tveimur leikjum.

 

Leikmenn á borð við Steinar Arason verða að fara að finna fjölina hjá ÍR en launmorðinginn með heitu hendina virðist hafa dýft fingurgómunum í þurrís því hann hefur aðeins gert samtals 5 stig í síðustu tveimur leikjunum en hann gerði 23 stig í fyrstu tveimur.

 

Annars segir undirrituðum svo hugur að ef ÍR ætlar að eiga möguleika í kvöld verða þeir að mæta hörðu með hörðu. Keflvíkingar hafa verið fastir fyrir í síðustu tveimur leikjum og ýtt ÍR út úr öllum sínum aðgerðum. Töluverður hiti er kominn á milli Hreggviðs og Gunnars en sá síðarnefndi hefur tekið Hreggvið í bakaríið að undanförnu. Kapparnir hafa þegar verið að munnhöggvast í fjölmiðlum og bíða körfuknattleiksunnendur spenntir eftir rimmu þeirra í kvöld.

 

Keflvíkingar hafa engan mann sambærilegan við Sveinbjörn Claessen. Piltur sá á eftir að eiga þessa deild þegar fram líða stundir. Ef Sveinbjörn kemst í fluggír og nær að rífa ÍR-inga með sér gætu Keflvíkingar vel tapað sínum þriðja heimaleik í vetur.

 

Það er því komin ólga fyrir kvöldinu og fólk hvatt til að mæta snemma í Toyotahöllina og tryggja sér gott sæti í húsinu eða yfir höfuð pláss á svæðinu því svona leikur er líklegur til þess að seljast upp og út í gegnum þakið.

 

Vonandi verður Arnari Björnssyni íþróttafréttamanni að ósk sinni. Að dagskrá Stöð 2 Sport riðlist verulega því tvíframlengja þurfi leikinn eða jafnvel oftar.

 

Keflavík-ÍR

Oddaleikurinn í Toyotahöllinni

Í kvöld kl. 19:15 – Beint á Stöð 2 Sport

 

[email protected]

Myndir: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -