Dwayne Wade leiddi lið Austurdeildarinnar til sigurs gegn Vestrinu, 141-139, í hinum árlega Stjörnuleik NBA sem fór fram í Dallas í nótt. Þetta var sögulegur leikur þar sem rúmlega 108.000 manns mættu í Cowboys Stadium, en aldrei hafa fleiri mætt á körfuboltaleik.
Leikurinn var annars ansi skemmtilegur og mikið um skemmtileg tilþrif eins og búast má við, en eftir spennandi lokamínútur tryggði heimamaðurinn Chris Bosh, sem spilar með Toronto Raptors, Austrinu sigurinn með tveimur vítum þegar skammt var til leiksloka. Vestrið fékk eitt tækifæri til að stela sigrinum, en skot Carmelo Antony geigaði um leið og lokaflautið gall.
Wade var valinn maður leiksins og er það í fyrsta sinn sem hann hlýtur þann heiður. Hann var enda með 28 stig, 11 stoðsendingar og fimm stelur og skoraði glæsilegar körfur í öllum regnbogans litum.
Carmelo Anthony fór fyrir liði Vestursins með 27 stig og 10 fráköst, en þetta var fjórði sigur Austursins í síðustu sex Stjörnuleikjum.



