spot_img
HomeFréttirVörnin vinnur titla...og leiki sem þennan

Vörnin vinnur titla…og leiki sem þennan

Valsmenn fengu bræður sína úr Hafnarfirðinum í heimsókn í kvöld í þriðju síðustu umferð Dominos-deildarinnar. Valsarar hafa heldur betur verið á uppleið undanfarnar vikur og höfðu unnið 6 leiki í röð þar til þeir þurftu að sætta sig við tap í Þorlákshöfn í síðasta leik eftir jafnan og skemmtilegan leik. Þrátt fyrir það sjá heimamenn sér fært að hala inn stig 21 og 22 í deildinni með sigri og tylla sér einir og yfirgefnir í fjórða sæti deildarinnar. Haukar eru hins vegar líka í góðum gír þessa dagana og hafa unnið þrjá leiki í röð. Þrátt fyrir það er botnsætið þeirra eins og sakir standa svo þeir munu væntanlega mæta grimmir til leiks eða hvað…? 

Spádómskúlan: Kúlan er afar ósátt við hýsil sinn og hefur ekki fengið að láta ljós sitt skína lengi. Kúlan er því óðamála allnokkuð og dregur upp mynd af gömlu og góðu körfuboltaspjaldi þar sem Jordan er með bikarinn. Fyrir það spjald gat maður fengið hvað sem var…og Valsmenn fá sigurinn og stigin 2 þrátt fyrir baráttugleði Hauka, lokatölur 95-85.  

Byrjunarlið: 

Valur: Jordan, Pavel, Kristó, Cardoso, Bilic

Haukar: Pablo, Hansel, Jalen, Breki, Brian

Gangur leiksins

Bilic byrjaði hjá Val í fyrsta sinn síðan fyrir löngu og ætlaði sér greinilega stóra hluti. Hann opnaði leikinn með þristi og hafði sett 7 stig í stöðunni 9-5. Gestirnir hertu þá vörnina og hófu að raða þristum, einkum Jalen og Hansel. Haukar komust 11-12 yfir og leiddu 15-22 eftir einn leikhluta. Það var aldeilis engin úrslitakeppnisbragur á vörn Vals í leikhlutanum og skelfilegur sóknarleikur á köflum gerði varnarhlutverkið ekki auðveldara fyrir heimamenn.

Hlutirnir skánuðu lítið hjá Val í upphafi annars leikhluta og Finnur tók leikhlé í stöðunni 20-27 og 7:40 til hálfleiks. Gestirnir áttu næstu 2 stig en svo byrjaði leikhlé Finns hugsanlega að skila sínu. Vörnin hjá heimamönnum varð nokkuð þéttari og þeir renndu sér löturhægt að hlið gestanna með Bilic og Jordan fremsta í flokki sóknarmegin. Það verður að segjast alveg eins og er að Natvélin blessuð sem spilaði góðar 4 mínútur í leikhlutanum var ekki beint að láta sitt gamla lið sakna sín. Valsarar jöfnuðu leikinn, loksins má kannski segja, í 32-32 þegar innan við 2 mínútur voru til hálfleiks. Reyndar leiddu gestirnir 34-37 í hálfleik en heimamenn áttu augljóslega mjög mikið inni og höfðu hitt afleitlega.

Jordan hafði verið frekar rólegur í fyrri hálfleik en byrjaði þann seinni á að jafna leikinn. Haukarnir héldu áfram að berjast og leikurinn var í góðu jafnvægi. Liðin skiptust á þristum og spennan örlítið að aukast í leiknum og húsinu…og mátti alveg við því. Valsmenn fengu svo óvæntan, eða ekki, stuðning frá ritaraborðinu um miðjan leikhlutann og fengu nýja skotklukku að ósekju sem endaði með þristi frá Jordan og setti stöðuna í 53-52. Þá var heldur betur búið að fínstilla valslöngvuna, Jordan skoraði ítrekað og með stigvaxandi vörn Valsmanna leiddu þeir 65-62 eftir þrjá.

Það voru engin læti og djöfulgangur í mönnum í fjórða leikhluta en valslöngvan hélt uppteknum hætti og skoraði og skoraði. Sennilega höfðu það margir á tilfinningunni sem á horfðu að það stefndi í vesen fyrir gestina og eftir þrist frá Jóni stóðu leikar 74-68 og aðeins 5 mínútur eftir. Sex stig er ekki mikið en Sævaldur hafði kannski sömu tilfinningu og tók leikhlé. Það var í það minnsta viðkvæmur tímapunktur þarna í leiknum og því miður fyrir Sævald og félaga skilaði hléið ekki nógu miklu. Pablo minnkaði að vísu muninn í 74-71 úr þremur vítum eftir dulítið klaufalegt brot Hjálmars, sem var annars flottur í þessum leik. Bilic svaraði hins vegar með þristi nokkrum sekúndum síðar og Jordan bætti öðrum við í kjölfarið. Í stöðunni 81-73 voru 2 mínútur eftir og Sævaldur freistaði þess að skipuleggja lokaáhlaup gestanna með leikhléi. Jafnvel símtal til Grindavíkur hefði þó ekki dugað og liðin settu 6 stig hvort á lokakaflanum og 87-79 sigur Valsara staðreynd. 

Menn leiksins 

Jordan og Bilic sáu að mestu um stigaskor Valsmanna, Jordan setti 31 og tók einnig 6 fráköst, Bilic var með 26 stig og 5 fráköst. Það var hins vegar varnarleikur heimamanna sem gerði gæfumuninn, hann varð betri eftir því sem á leið leikinn sem er gott því sígandi lukka er best.

Kjarninn

Valsmenn virtust vera í frekar rólegum gír í þessum leik, einkum í fyrri hálfleik. Það dugði til að verjast betur í þeim seinni og Jordan er eins manns her fram á við. Bilic studdi hann þó dyggilega og sennilega er táin orðin góð og spurning hvort hann verði ekki bara geggjaður í úrslitakeppninni? Fínn sigur hjá Val og engar orkugeymslusprengingar sjáanlegar í þessum leik. Liðið er klárt í úrslitakeppnina og var kannski statt í logninu á undan storminum í kvöld ef svo má segja.

Sævaldur benti á í viðtali eftir leik að það að tapa með 8 stigum gegn þessu sterka liði á útivelli væri ekkert til að skammast sín fyrir. Undirritaður er sammála því og það var augljóst að liðsmenn Hauka lögðu sig alla fram í þessum leik. Enn er von fyrir Hauka en fallbaráttan er svo jöfn að það er ómögulegt að rýna mikið í stöðuna…Haukar þurfa bara að einbeita sér að því að sækja þessi 4 stig sem eru enn í pottinum og sjá svo hvernig staðan verður þá!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Kári Viðarsson 

Fréttir
- Auglýsing -