Íslenska U16 landslið stúlkna vann fyrsta sigur Íslands á Norðurlandamóti yngri flokka sem fram fer í Finnlandi þessa dagana. Andstæðingar Íslands voru Noregur en sigurinn hafðist á lokamínútunni. Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:
Gangur leiksins:
Íslenska liðið var mun ákveðnara og sterkara í upphafi leiks. Ísland byrjaði á 9-0 áhlaupi og Noregur setti ekki boltann í körfuna fyrr en fimm og hálf mínúta var liðin af leiknum. Íslendingar leystu pressu Noregs virkilega vel og skotin voru að rata ofaní. Á sama tíma réð Noregur illa við að íslendingar mættu þeim hátt á vellinum. Fyrir vikið var Ísland með í kringum tíu stiga forystu meirihluta fyrri hálfleiks.
Þegar leið á hálfleikinn fóru skotin að bregðast og vörnin að linast. Leikmenn sem höfðu verið ákveðnir og klárir varnarlega misstu einbeitingu og Noregur fékk auðveldari körfur. Noregi tókst því að minnka muninn í þrjú stig 25-22 rétt fyrir hálfleik og þannig fóru liðin til búningsklefa.
Noregur setti fyrstu þrjár körfurnar í þriðja leikhluta og var skyndilega komið með forystuna. Vonleysið tók yfir hjá íslenska liðinu sem missti trú á eigin getu á sama tíma. Allt varð erfiðara á báðum endum og Noregur náði tíu stiga forystu. Staðan eftir þriðja leikhluta var 33-43 fyrir Noregi.
Tvær þriggja stiga körfur frá Ólöfu Rún og Önnu Ingunni kom muninum niður í tvö stig um miðjan lokaleikhlutann. Íslenska liðinu gekk illa að nýta tækifærin til að jafna eða komast yfir, allt þar til mínúta var eftir af leiknum. Þá setti Ísland þrjár körfur í röð og komst fjórum stigum yfir. Það var nóg til þess að knýja fram góðan sigur á Noregi 50-46.
Hetjan:
Liðsheildin vann þennan leik, þrátt fyrir að það megi vera klisja þá var það staðreyndin í dag. Engin leikmaður Ísland skaraði frammúr og allar lögðu eitthvað til. Eygló Kristín Óskarsdóttir skilaði frábærri tölfræði með 8 stig, 13 fráköst og 5 varin skot. Alexandra Sverrisdóttir var einnig drjúg með 13 stig og sex fráköst.
Kjarninn:
Þegar uppi er staðið var íslenska liðið klókara í lok leiksins. Liðið setti upp fínar sóknir þegar það virkilega þurfi á að halda og vörnin spilaði frábærlega. Það sást í dag að þetta lið á helling inni, frammistaða liðsins var kaflaskipt. Staðan í miðjum öðrum leikhluta var 21-6 en strax í byrjun seinni hálfleik var hún orðin 25-29 Noregi í vil. Þegar leikmenn halda einbeitingu og hafa trú á eigin getu þá er allt hægt.
Viðtöl eftir leik:
Mynd / Davíð Eldur
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson