spot_img
HomeFréttirVörn Þórs læsti síðustu fjórum mínútunum

Vörn Þórs læsti síðustu fjórum mínútunum

,,Þetta var virkilega súrt. Mér fannst við vera betri og áttum bara að klára þetta. Það er ekkert flóknara en það”, sagði Oddur Rúnar Kristjánsson leikmaður Breiðabliks í leikslok. Á löngum kafla í leiknum voru gestirnir úr Kópavoginum skrefi á undan heimamönnum og lengi vel stefndi í sigur gestanna. Þórsarar sýndu þó gríðarlega karakter undir lok leiksins og með mikilli baráttu og seiglu náðu þeir að snúa leiknum sér í vil og höfðu að lokum 6 stiga sigur, 90 – 84.
 
 
Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu sex fyrstu stig leiksins. Gestirnir úr Kópavoginum vöknuðu þó smá saman til leiks og komu sér aftur inn i leikinn. Jafnt var með liðunum lengi vel í fyrri hálfleik. Lengi vel var lítið skorað, sóknarleikur beggja liða var stirrður og baráttan inn á vellinum var alls ráðandi. Jafnt og þétt náðu gestirnir yfirhöndinni. Prímusmótorinn í liði Blika, Jerry Lewis Hollins átti þó erfitt uppdráttar á báðum endum vallarins og komst fljótt í villuvandræði en vandræði Hollins hafði þó ekki hafa mikil áhrif á gestina í fyrri hálfleik.
 
,,Mér leið ágætlega hérna í kvöld en það var bara ekki nóg, því miður” sagði Oddur Rúnar, sem var áberandi í liði gestanna í fyrri hálfleik. Drengurinn nýtti skot sín, þá sérstaklega í fyrri hálfleik afar vel. Oddur skoraði 16 af 24 stigum sínum í fyrri hálfleik og var aðal ástæðan fyrir þvi að gestirnir leiddu leikinn með 5 stigum, 43 – 48 þegar liðin gengu til búningsklefa.
 
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. Breiðablik var ávallt skrefi á undan heimamönnum, og þrátt fyrir að einn besti leikmaður þeirra sæti á bekknum, virtust blikanir enn staðráðnari við að sækja sigur. Leikur heimamanna var þó ekki til að hrópa húrra fyrir lengi vel í síðari hálfleik. Varnarleikurinn var einfaldlega ekki nægilega góður þar sem gestirnir náðu ítrekað auðveldum stigum. Sóknarleikurinn var jafnframt afar stirrður og áttu Þórsarar í miklum vandræðum með að leysa svæðisvörn gestanna. Þrátt fyrir að spila ekkert sérlega vel, náðu heimamenn einhvern vegin að halda í við blikana sem leiddu leikinn einungis með fimm stigum, 63 – 68 að loknum þriðja leikhluta. Blikarnir munu eflaust naga sig í handarbökin fyrir að hafa ekki náð að byggja upp meira forskot á heimamenn þegar færi gafst enda náðu Þórsarar hægt og bítandi yfirhöndinni á lokamínútum leiksins.
 
,,Ég held að vendipunkturinn hafi verið að þeir skoruðu allt of auðveldar körfur. Þeir fengu oft of auðveld stig undir körfunni og það breytti leiknum”, rifjaði Oddur Rúnar upp í leikslok. Þar hefur Oddur rétt fyrir sér að vissu leyti. Leikurinn gjörbreyttist eftir að Þórsarar föttuðu loksins hvernig ætti að spila gegn svæðisvörn gestanna. ,,Sóknarleikurinn, við föttuðum loksins þessa svæðisvörn hjá Blikunum og fundum loksins glufurnar” tjáði Ólafur Aron í leikslok þegar hann spurður um hvað hafi breyst í leiks liðsins undir lok leiksins.
 
Í fjórða leikhluta ákvað Bjarki Oddsson þjálfari Þórsara að gefa þeim Sveini Blöndal (14 stig) og Sveini Skúlasyni (6 stig, 4 stoðsendingar) fleiri mínútur sem skiluðu sér heldur betur. Erfitt er að sjá áhrif þeirra á sóknarleik liðsins í tölfræðiskýrslum, en við komu þeirra, þá sérstaklega Svein Blöndal, náðu Þórsarar að opna vörn gestanna mun betur, þá sérstaklega fyrir þá Ólaf Aron og Jarrell Crayton undir körfunni. Bjarki Oddsson þjálfari Þórs minnti einmitt á þetta framlag Svein Blöndals í að snúa leiknum Þórsurum í vil ,,það að geta sett svona gamlan ref inn í miðjuna, það breytir bara öllu. Það væri fróðlegt að sjá hvað hann [Sveinn Blöndal] átti af stoðsendingum og sendinum á undan stoðsendingunni”.
 
Það var ekki bara Sveinn Blöndal og Sveinn Skúlason sem snéru leiknum heimamönnum i vil. ,,við höfum stundum tekið svona stretch hluta í leikjum þar sem við höldum liðum skorlausum í nokkrar mínútur og þess á milli ekki eins vel. Auðvitað getum við ekki slökkt alveg á liðum en ég er sáttur ef við náum að halda liðum undir 80 stigum” benti Bjarki einnig á í leikslok. En það var einmitt svona stretch sem heimamenn tóku undir lok leiksins í vörninni og náðu að halda gestunum skorlausum í nokkrar mínútur. Gestirnir náðu ekki að skora síðustu fjórar mínútur leiksins sem var lykillinn af sigrinum. Einnig syndu Þórsarar skynsemi í sóknarleiknum og náðu því loksins að sigla sætum, 90-84 sigri í heimahöfn.
 
Bæði lið náðu að sýna af og til góða spretti. Gestirnir með Odd Rúnar Kristjánsson í fararbroddi hefðu alveg geta klárað leikinn en þeir Þorsteinn Gunnlaugsson (19 stig og 11 fráköst) og Pálmi Jónsson (14 stig) gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til ná sigrinum. Það sem háði gestunum þó var að Jerry Lewis Hollins komst aldrei í takt við leikinn sökum villuvandræða og þvi hefði verið forvitnilegt að sjá hvernig leikurinn hefði þróast hefði Jerry náð að einbeita sér að fullu.
 
Aftur á móti í liði heimamanna voru þeir Jarrell Crayton og Ólafur Aron lang atkvæðamestir. Jarrell sýndi fyrirmyndar baráttu í kvöld. Auk þess að skora 26 stig, hirti hann 19 fráköst, þar af 12 varnarfráköst. ,,Ég þarf að skora í þessu liði. Bjarki segir mér það og ég reyni að gera það þegar það hentar” var meðal annars það sem Ólafur Aron benti á við fréttaritara í leikslok. Það var einmitt það sem drengurinn gerði svo vel í kvöld. Þegar Þórsliðið vantaði stig á töfluna, svaraði hann ávallt kallinu. Ólafur setti niður 23 stig og gaf 6 stoðsendingar og var oftar en ekki primusmótorinn í sóknarleiknum. Einnig voru þeir Sindri Davíðsson (16 stig), Sveinn Blöndal (14 stig) og Sveinn Skúlason (6 stig og 4 stoðsendingar) afar öflugir. Vörn heimamanna var ágæt, þó sérstaklega undir lok leiksins. Þeir náðu stoppi þegar nauðsyn var. En enn og aftur var þó skotnýting liðsins ekki nægilega góð, þá sérstaklega vítanýtingin (47%) sem hefði hæglega geta komið í bakið á heimamönnum, en gerði þeim að minnsta kosti erfitt í kvöld.
 
Eftir leikinn sitja Þórsarar enn í 2 sætinu á meðan Breiðablik datt niður í það fimmta og nokkuð ljóst að baráttan um úrslitakeppnina verður afar hörð. Bæði lið eiga erfiða leiki í næstu umferð. Þórsarar eiga FSU á meðan blikarnir eiga Hött. Hins vegar var engan bilbug að finna á leikmönnum liðanna. ,,Þetta var erfiður leikur í kvöld, og svo eigum við Hött og Tindastól. Eigum þvi erfiða leiki framundan en þetta leggst bara vel í mig” sagði Oddur Rúnar leikmaður Blika og sló Ólafur Aron leikmaður Þórs í svipaða strengi ,,mig hlakkar rosalega til með framhaldið. Við erum komnir með liðið sem okkur langar að vera með. Við erum komnir með Svenna Blöndal, Svenna Skúla og Einar inn í þetta. Það bara munar svakalega upp á breiddina og þá getum við, sem byrjum inn á að hvíla. Ég er bara mjög brattur með framhaldið”, sagði Ólafur að lokum.
 
 
Umfjöllun/ Sölmundur Karl Pálsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -