spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaVörn Hrunamanna hélt Hamri í 80 stigum

Vörn Hrunamanna hélt Hamri í 80 stigum

Enn hefur ekkert lið í 1. deild karla sótt sigur í sveitina. Í þetta skiptið lá Hamar fyrir Hrunamönnum í bráðfjörugum leik á Flúðum. Leikinn hófu sveitamennirnir af gríðarmiklum krafti. Hreyfanleg svæðisvörnin þar sem allir leikmenn voru með hlutverk sín á tæru hleypti engu í gegn. Hinu megin á vellinum gengu þeir svo til verka af álíka miklum dugnaði og bændur sem þurfa að ná heyjunum inn áður en skellur á með skúr.

Það var ekkert verið að hanga á boltanum heldur drifið í því að koma honum inn í teiginn á Karlo Lebo eða Yngva Frey Óskarsson sem annað hvort skiluðu honum rétta leið ofan í körfuna eða drógu að sér nógu marga Hvergerðinga til þess að finna lausan samherja og létu hann fá boltann svo hann gæti skorað fyrir utan. Þannig náðu Hrunamenn fljótt öruggri forystu sem þeir létu aldrei af hendi. Hrunamenn luku leik með 98 skoruðum stigum gegn 80 stigum Hamars.

Ákefðin í leik Hrunamanna gekk fullkomlega upp en hún útheimti líka mikla orku frá leikmönnum liðsins. Undir lok fyrri hálfleiks var farið að draga af þeim og Hamar svaraði með stuttu áhlaupi og náði þannig að hanga inn í leiknum. Sama gerðist aftur í 3. fjórðungi en þeir kaflar voru ekki nægilega langir til þess að Hrunamenn gæfust upp. Það gerðu þeir einfaldlega ekki.

Hrunamenn höfðu bersýnilega búið sig þannig undir leikinn að hleypa Bandaríkjamanninum í liði Hamars, Dareial Corrione Franklin, aldrei inn í leikinn. Eitt afbrigði varnarleiks þeirra var þannig að fjórir leikmenn liðsins stóðu í svæði en Eyþór Orri Árnason elti Dareial Franklin hvert sem hann fór og gætti þess að hann fengi helst aldrei boltann í hendurnar. Dareial skoraði ekki nema 10 stig í leiknum.

Varnarleikur Hrunamanna var að flestu leyti mjög vel útfærður. Eyþór Orri var ekki einn um að standa þá vakt með prýði. Kristófer Tjörvi átti afbragðsgóðan leik, Clayton Ladine var gríðarlega hreyfanlegur og stóru mennirnir, Karlo og Yngvi Freyr, spiluðu vörnina báðir með miklum ágætum. Hjá Hamri var Maciek Klimaszewski bestur í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik steig Joao Goncalo upp og í fjórða leikhluta kviknaði líka á Birni Ásgeiri Ásgeirssyni sem er kominn heim í Hamar eftir stutta dvöl í bandaríska háskólaboltanum.

Björn Ásgeir var stigahæstur Hamarsmanna með 22 stig. Dareial Franklin tók 12 fráköst. Þá var frammistaða hins unga, Hauks Davíðssonar (litla bróður Dagnýjar Lísu í Fjölni og landsliðinu), eftirtektarverð. Hann fær traust þjálfara síns og fær að spila. Haukur þorir að skjóta boltanum. Hann er ekki alveg búinn að læra að framkvæma allar varnarstöður rétt eða með löglegum hætti en hann spilaði vel í sókninni.

Hjá Hrunamönnum var Yngvi Freyr með 30 stig og 14 fráköst. Karlo var með 16 fráköst og 19 stig. Clayton skoraði 25 stig og gaf 13 stoðsendingar og Hamarsmenn brutu 12 sinnum á honum. Tölfræðin segir þó ekki allt um frammistöðu leikmanna. Eins og fram hefur komið voru Eyþór og Kristófer góðir í liði Hrunamanna.

Tölfræði leiks

Staðan í deildinni

Umfjöllun / Karl Hallgrímsson

Myndir / Brigitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -