spot_img
HomeFréttirVörn Álftaness leiddi lestina af teinunum

Vörn Álftaness leiddi lestina af teinunum

Álftnesingar léku sinn fyrsta leik í úrslitakeppni efstu deildar í Keflavík síðastliðið fimmtudagskvöld. Þrátt fyrir ágætis frammistöðu liðsins höfðu Keflvíkingar betur 99-92. Nú var komið að fyrsta heimaleik liðsins í pakkaðri Forsetahöllinni og nánast lífsspursmál að jafna seríuna í 1-1. Þórsarar og Hattarmenn gerðu það í sínum viðureignum í gærkvöldi, geta Álftnesingar gert slíkt hið sama, Kúla góð?

Kúlan: ,,Já auðvitað! Heimamenn kæfa Keflvíkinga með suddalegri vörn, naumt verður það þó, 88-84.“

Byrjunarlið

Álftanes: Wilson, Haukur, Dúi, Hössi, Ville

Keflavík: Dolezaj, Jaka, Martin, Siggi, Oman

Gangur leiksins

Martin byrjaði leikinn með feitum loftbolta einhvers staðar frá Ásgarði og stúkan lét hann vel heyra það. Hann glotti bara við tönn og setti fyrstu körfu leiksins og fékk víti með henni sem hann setti reyndar ekki. Annars spilaðist leikurinn mikið til eftir höfði heimamanna, vörnin var grjóthörð og vafalaust ólöglega hörð að mati gestanna á köflum. Keflvíkingar fengu þó eitthvað af ágætum þriggja stiga skotum en ekkert vildi niður. Sóknarlega voru heimamenn ekkert sérstaklega heitir heldur, eftir tæplega 7 mínútna leik var staðan 12-4 og Pétur sjálfur Ingvarsson henti í leikhlé! Það virtist engu skila, 17-6 var staðan eftir einn fjórðung…ég endurtek; sautján – SEX!

Stipcic opnaði annan leikhluta með þristi og raunir gestanna héldu áfram. Dolezaj sýndi sínum mönnum að það er víst gerlegt að setja þrist en forskot heimamanna jókst samt og leiddu 28-11. Drengirnir úr Kef-City bitu þó aðeins frá sér í framhaldinu og eftir annan þrist Keflvíkinga frá Jaka stóðu leikar 28-16. Þá voru um 5 mínútur eftir af öðrum leikhluta og Kjartan ákvað að blása til leikhlés og vildi vafalaust gera allt til að viðhalda múrnum góða. Það leit vel út með það eftir þrist frá Eysteini og heimamenn leiddu aftur með 17 stigum, 33-16. Gestirnir löguðu hins vegar stöðuna talsvert fyrir hlé, munurinn aðeins 8 stig, 37-29 og spennandi síðari hálfleikur í kortunum.

Keflvíkingar höfðu skotið 26% í heildina í fyrri hálfleik á móti 40% hjá heimamönnum og maður gat ekki séð annað en að lögmál meðaltalsins myndi eitthvað grípa inn í. En það gerðist bara ekki, um miðjan leikhlutann leiddu heimamenn enn 47-36 og engu líkara en það væri bara lok á körfunum, einkum fyrir piltana frá Sunny-Kef. Martin og Maric fundu hins vegar einhverja leið í gegnum hringinn næstu mínútur og þegar 1:35 lifði af þriðja leikhluta var staðan orðin 49-45 og frasi Péturs um að körfuboltaleikur standi yfir í 40 mínútur hljómaði í höfði undirritaðs. Dúi Þór sá hins vegar um að róa aðeins taugar sinna manna með gríðarlega mikilvægri körfu góðri í lok leikhlutans og Álftnesingar fóru með 8 stiga púða, 55-47, inn í lokafjórðunginn.

Hittni liðanna lagaðist ekki neitt eins og fram hefur komið og fyrstu mínútur fjórða leikhluta var keppni í múrsteinakasti! Eftir 3 mínútna leik leiddu heimamenn 58-47 og Jaka hefur hugsanlega fengið einn múrsteininn í höfuðið því það fauk af og hann á bekkinn með 5 villur. Tveimur mínútum síðar var staðan 62-50 og hraðlestin sjálf bara ekkert mjög líkleg til að ná að setja 62 stig í leiknum. Haukur Helgi ísaði svo leikinn með þristi, aftur 2 mínútum síðar og aðeins 3 mínútur eftir af leiknum, staðan 70-50. Fáir hefðu spáð ruslamínútum fyrir leik en eftir eina og hálfa slíka lauk leik með geggjuðum sigri Álftnesinga, 77-56.

Menn leiksins

Haukur Helgi spilaði stórvel í kvöld og fór vel á því að hann kláraði leikinn eins og fram kemur að ofan. Hann setti 17 stig, tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Það er hins vegar ekki stíll Álftnesinga að vinna leiki með því að skora einhver ósköp, augljóslega var það frábær varnarframmistaða hjá liðinu öllu sem skóp sigurinn, héldu hraðlestinni í 56 stigum!

Hjá gestunum var Remy Martin sá eini sem setti yfir 10 stig, endaði með 17, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.

Kjarninn

Það var þétt setið í Forsetahöllinni í kvöld, spánný rafmagnsauglýsingaskilti, stólar útum allt og flott stemmning. Liðið olli svo engum vonbrigðum, frábær fyrsti sigur Álftnesinga í úrslitakeppni úrvalsdeildar! Undirritaður var farinn að óttast sópadans í 8-liða úrslitum í ár en stefnir í að eingöngu Íslandsmeistararnir fái að kenna á sópnum að þessu sinni. En serían er rétt að byrja, næsti leikur í Keflavík og þar þurfa nýliðarnir að vinna leik ætli þeir sér að komast áfram. Geta Álftnesingar sett upp aðra eins varnarframmistöðu í Bítlabænum á föstudag?

Keflvíkingar, kannski rétt eins og öll lið, hafa átt leiki þar sem þeir hitta ekki hafið standandi á bryggjunni. Einn slíkur fór fram í kvöld. Pétur sagði í viðtali eftir leik að það væri sannarlega ástæða fyrir Keflvíkinga að hafa áhyggjur, svona niðurstaða, 21 stigs tap, sáir efasemdarfræjum í höfði þeirra – gefur aftur á móti Álftnesingum trú og von. Körfuboltaleikur stendur yfir að jafnaði í 40 mínútur og leikurinn snýst um að hitta ofan í körfuna. Pétur hefur það á hreinu og líka þá staðreynd að í úrslitakeppnisseríu þarf að vinna 3 leiki. Staðan er 1-1, áfram með fjörið og Keflvíkingar geta varla annað en skotið betur komandi föstudagskvöld.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -