spot_img
HomeFréttirVont í sjóinn og Ægir leiddi Stjörnuna til sigurs

Vont í sjóinn og Ægir leiddi Stjörnuna til sigurs

Grindvíkingar svöruðu fyrir sig í leik 2 í 8-liða úrslitaseríunni gegn Stjörnunni. Það eru nokkur EN sem verða að fá að koma fram en Hlynur Bærings var ekki með í leik 2…en verður nú með í leik 3…en Mirza er meiddur, svo…EN Nelson er ekki með Grindavík…jafnt á komið? Er ekki einvígið 1-1 og áfram gakk? Hvað sem öllum EN-um líður skiptir miklu máli fyrir Stjörnumenn að nýta liðna atburði á jákvæðan hátt eins og hægt er.

Grindvíkingar búast vafalaust við særðu dýri í morðhugleiðingum. Ef einhver sér það fyrir þá er það Dagur Kár Jónsson, enda í grunninn Stjörnumaður með keflvísku ívafi. Það er óhætt að segja að hann var langhraðasti beitingamaðurinn af sínum mönnum í leik 2, þó margir hafi sýnt mikinn dug og elju. Tvísýnt og skemmtilegt er það og snúum okkur að Kúlunni góðu…

Kúlan: Þessi er helvíti snúinn eða hvað?

,,Nei, alls ekki. Minn maður, Arnar Guðjóns, mun peppa sína menn hæfilega mikið og Stjarnan tekur þennan leik nokkuð örugglega, 84-77.

Byrjunarlið:

Stjarnan: Hlynur, AJ, Gunni, Addú, Ægir

Grindavík: Abif, Óli, Kristófer, Kiddi, Dagur

Gangur leiksins

Heimamenn áttu fyrstu 6 stig leiksins, Ægir fjögur þeirra og engu líkara en að Grindvíkingar hafi ekki haft nokkra hugmynd um tilvist hans fyrir leik. Gestirnir jöfnuðu leikinn með tveimur þristum og allt var í járnum eftir það út fyrsta leikhluta. Dúi kom snemma inn á í leiknum, skilaði góðum mínútum og kom Stjörnunni í 18-15 seint í leikhlutanum. Bróðir hans svaraði fyrir sig með því að blokka litla bró skömmu síðar en heimamenn leiddu þrátt fyrir það 20-18 eftir einn.

Það var frekar rólegt yfir hlutunum í öðrum leikhluta, lítið skorað og líkt og bæði lið hafi bara kastað akkerum. Borgnesingurinn snjalli, Björgvin Hafþór kom sínum mönnum yfir í 27-28 með laglegum þristi en heimamenn sigldu þó fram úr aftur og komu sér í 36-30 eftir þrist frá meistara Hlyni. Þá voru tæpar 3 mínútur til leikhlés og Danni tók leikhlé. Það olli vægast sagt engum straumhvörfum í leiknum, aðeins 5 stig bættust við á töfluna og staðan 39-32 í hálfleik.

Heimamenn hófu síðari hálfleik af krafti og hótuðu að stinga gestina af. Gunnar Ólafs setti sín fyrstu stig í leiknum og virtist geta hlaupið alla af sér líkt og liðsfélagi sinn Ægir. Dagur reyndi að halda sínum mönnum inn í leiknum og setti nokkur stig en Stjarnan leiddi 52-39 um miðjan leikhlutann og farið að glitta í himininn í Garðabænum. Danni tók leikhlé til að hressa upp á sína menn en það var eins og gestirnir væru að reyna að hitta ofan í körfu í stórsjó, ef ekki aftaka hafróti, og ekkert vildi niður. Þegar 3:30 voru eftir setti Alex fallegan þrist og kom Stjörnunni 18 stigum yfir, 59-41. Gestirnir náðu að svara aðeins fyrir sig síðustu á síðustu mínútum leikhlutans, staðan 63-50 fyrir lokaleikhlutann og staðan ekki enn vonlaus.

Liðin lyftu akkerum í byrjun fjórða og áhorfendur fengu skemmtilega þriggja stiga skotveislu í boði Joonasar, Kidda, Ægis og Gunnars. Dagur bættist svo í hópinn og braut niður 10-stiga múrinn og munurinn 7 stig í stöðunni 71-64. Hlynur endurbyggði þá bara múrinn í næstu sókn og hann hélst uppi það sem eftir lifði leiks. Segja má að Addú hafi vatnsþétt múrinn með þristi þegar um 3 mínútur voru eftir og setti stöðuna í 81-66. Lokatölur urðu 85-69 og Stjarnan komin í 2-1 forystu í einvíginu.

Menn leiksins

Flottur liðssigur hjá Stjörnunni en eins og oft áður var varnarleikurinn lykilatriði. Þegar rýnt er í tölfræðina mætti taka Ægi út, en hann var með 18 stig, 11 stoðsendingar og 6 fráköst.

Dagur og Kiddi voru atkvæðamestir hjá Grindavík, Kiddi með 17 stig og 5 fráköst, Dagur 14 stig og 7 stoðsendingar.

Kjarninn

Ekki var annað að sjá en að Arnari hafi tekist að brýna sína menn hæfilega mikið fyrir þennan leik og sigurinn var nokkuð öruggur. Varnarleikurinn var að mestu mjög góður, líkt og í fyrsta leiknum, en í viðtali við Arnar eftir leik kom fram að hann telur liðið geta gert enn betur. Mirza var ekki sárt saknað í þessum leik en auðvitað verður það seint betra að missa slíkan mann í meiðsli.

Grindvíkingar virkuðu svolítið andlausir í þessum leik og liðið var svolítið eins og fiskur á þurru landi. Margir leikmenn voru nokkuð langt frá sínu besta og lítið um svör sóknarlega. Varnarleikurinn var ágætur til að byrja með en fór undir hægt og rólega þegar syrta tók í álinn. Ljóst er að Grindvíkingar þurfa að stíga ölduna betur ætli þeir sér að komast í oddaleik.

Athygliverðir punktar:

  • Silfurskeiðin stóð sig ágætlega en var fámenn.
  • Það var eins og menningarsjokk að koma í MG-höllina úr DHL-höllinni. Ekki fjölmennt í húsinu og örugglega ekki uppselt sem er dapurlegt.
  • Það er óskandi og ekki ólíklegt að staðan verði önnur komi til oddaleiks. Hlutlausir körfuboltaaðdáendur myndu a.m.k. ekki gráta það.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -