spot_img
HomeFréttirVonbrigði að vera dýrasti vatnsberinn í Svíþjóð

Vonbrigði að vera dýrasti vatnsberinn í Svíþjóð

Eins og áður hefur komið fram er Nat-vélin, Ragnar Ágúst Nathanaelsson, mættur aftur til starfa í Domino´s-deildinni eftir ársveru í Svíþjóð. Þó Ragnar hafi verið kampakátur með liðsfélaga sína í reynsluboltum eins og Hlyni Bæringssyni, Jakobi Sigurðarsyni og Ægi Þór Steinarssyni þá var hann ekki jafn hamingjusamur með þjálfara Sundsvall Dragons og hvernig mál miðherjans þróuðust á síðustu leiktíð.

„Ég lærði auðvitað mikið í Svíþjóð svo ég tali nú ekki um að hafa menn eins og Hlyn, Jakob og Ægi með sér þarna. Þjálfarinn hefði kannski mátt kenna manni meira, það voru auðvitað hrikaleg vonbrigði að vera dýrasti vatnsberinn í Svíþjóð,“ sagði Ragnar, alvarlegur en þó kátur á manninn sem fyrr. 

„Manni var einfaldlega ekki treyst, auðvitað er það ekkert létt verk að taka mínútur af Hlyni Bæringssyni en þjálfarinn var bara fullur af afsökunum og vonbrigðin því aðallega tengd því að dvölin hjá liðinu varð allt önnur en rætt var um upphaflega. Ég lærði af þessu og veit nú hvernig þessi heimur er.“

Eins og hefur komið fram er Ragnar með samning við Þór sem gengið var frá í gærkvöldi. Hann hefur þó svigrúm til þess að ráða sig til liða í öðrum löndum. „Ég gæti líka byrjað með Þór en hef leyfi til að fara síðar ef gott tilboð berst,“ sagði Ragnar sem þegar er byrjaður að búa sig undir landsliðssumarið og ekki seinna vænna þar sem Smáþjóðaleikarnir eru 1.-6. júní næstkomandi. 

„Við fórum fyrr út úr úrslitakeppninni í Svíþjóð en við ætluðum okkur og ég tók mér tvær vikur í frí en er byrjaður aftur núna á fullu með Baldri Þór Ragnarssyni en hann er bæði að styrkja mig og svo ætlum við að brjóta aðeins niður varnarleikinn minn og kafa dýpra í hann, vörnina þarf að bæta og við munum nota næstu vikur til að vinna vel í mínum málum svo mér líst vel á sumarið. Það yrði svo ekki amalegt að ná að enda sumarið á því að spila á móti köllum eins og Dirk Nowitzki, Gasol-bræðrum og Ibaka og fá að sjá hvar maður stendur gegn þessum köllum,“ sagði Ragnar sem vinnur hörðum höndum að því að vinna sér inn pláss með A-landsliðinu. 

Þeir kumpánar Baldur og Ragnar hafa áður unnið saman og á sínum tíma sagði Ragnar að Baldur með einkaþjálfun sinni hefði gefið sér „rass“ sem virtist víst hafa verið skortur á áður en þeir félagar hófu samstarf. „Núna ætlar hann að gefa mér varnarslide.“

Fréttir
- Auglýsing -