spot_img
HomeFréttirVonarneisti kviknaður hjá Sauðkrækingum

Vonarneisti kviknaður hjá Sauðkrækingum

 

Tindastóll sigraði Keflavík 107-80 í þriðja leik félaganna í 8 liða úrslitum Dominos deildar karla. Eftir leikinn leiðir Keflavík þó enn 2-1 í einvíginu en næsti leikur liðanna er komandi föstudag í TM Höllinni í Keflavík.

 

 

Gangur leiks

Það eina sem var nálægt því að vera jafnt í þessum leik var fyrsti leikhlutinn. Þegar hann er hálfnaður leiða heimamenn 10-9, en þeir ná svo með góðu 9-1 áhlaupi undir lok hans að koma sér í fína forystu 27-19. 

 

Í upphafi annars leikhlutans stingur Tindastóll svo af. Eru 20 stigum yfir, 46-23, þegar hlutinn er hálfnaður. Láta svo kné fylgja kviði undir lok hlutans og fara með þæginlega 25 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 59-34.

 

Atkvæðamestur fyrir Tindastól í fyrri hálfleiknum var, af bekknum, Chris caird, með 15 stig á aðeins 12 mínútum spiluðum. Fyrir Keflavík var það Reggie Dupree sem dróg vagninn með 12 stigum og 3 fráköstum.

 

 

Í seinni hálfleiknum gerði Tindastóll það sem þurfti til þess að halda forystu sinni. Keflavík, í raun, náði aldrei að gera neina alvöru atlögu að því að gera þetta að leik aftur. Eftir þriðja leikhlutann var staðan 87-58. Snemma í fjórða leikhlutanum kastar Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, inn hvíta handklæðinu. Fór svo að lokum að Tindastóll sigraði 107-80.

 

Kjarninn

Það var hreinlega eins og Keflvíkingar hafi ekki mætt til leiks í kvöld. Að sama skapi gerði Tindastóll vel. Bæði í að byggja upp forystuna í fyrri hálfleik, sem og að halda henni. Hleyptu Keflavík ekki inn fyrir 20 stigin eftir að þeir voru komnir þangað. Þvílíkur munur á báðum liðum frá því í síðasta leik. 

 

Frábær fyrri

Tindastóll gjörsamlega drap þennan leik í fyrri hálfleik. Bæði með frábærum varnarleik, Keflavík tapaði 9 boltum í fyrri hálfleiknum á móti aðeins 3 þeirra. Einnig var allt annað að sjá sókn þeirra, gáfu 13 stoðsendingar á móti aðeins 2 gestanna. 

 

Týndur

Besti leikmaður deildarinnar þetta árið, leikmaður Keflavíkur, Amin Stevens, var gjörsamlega týndur í kvöld. Skoraði 6 stig í leiknum, þar sem að aðeins ein karfa kom af utan af velli, en 4 þeirra úr vítaskotum. Það sem kannski meira er, er að hann tók aðeins 4 skot í öllum leiknum. Ótrúleg sveifla hjá leikmanni sem að hefur skorað að meðaltali 30 stig í leik í vetur.

 

Hetjan

Í mjög góðu Tindastólsliði í kvöld var Christopher Caird fremstur meðal jafningja. Eins og áður var tekið fram skoraði hann 15 stig á fyrstu 12 mínútum sínum í leiknum og var stór ástæða þess að þeir náðu að byggja upp þessa forystu sína. Í heildina skoraði hann 19 stig og tók 3 fráköst á þeim 20 mínútum sem hann spilaði í leiknum.

 

Áhyggjuefni

Leikmaður Keflavíkur, Daði Lár Jónsson, meiddist snemma í 2. leikhluta leiksins eftir samstuð við erlendan leikmann Tindastóls, Antonio Hester. Engar fregnir hafa borist af alvarleika meiðsla Dags, en ljóst er að sé hann ekki með liðinu í þessu einvígi er það áhyggjuefni. Bæði er hann frábær varnarmaður sem og stýrir hann sókn Keflavíkur þegar að Hörður Axel Vilhjálmsson er ekki á vellinum.

 

 

Geta Stólarnir komið til baka?

Já, það geta þeir vel. Sérstaklega ef að þeir sýna af sér þá spilamennsku sem að þeir sýndu í kvöld. Síðasta lið til þess að komast 2-0 yfir í 8 liða úrslitaeinvígi og detta samt út var einmitt Keflavík, en það gerðu þeir árið 2015 gegn Haukum. Að því sögðu, þá er þó enn á brattann að sækja fyrir Tindastól. Sauðkrækingar þurfa að fara til Keflavíkur á föstudaginn og vinna og þeir geta næstum bókað það að lið Keflavíkur á ekki eftir að eiga jafn slæman leik og í kvöld.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir, viðtöl / Hjalti Árna

 

Brjáluð stemming í Síkinu fyrir leik:

 

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -