Önnur úrslitaviðureign KR og Stjörnunnar í Iceland Express deild karla fer fram í Ásgarði í Garðabæ í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15 og er staðan 1-0 KR í vil. Karfan.is ræddi við Pétur Sigurðsson leikmann og þjálfara Laugadæla í 1. deild karla um leik kvöldsins en Pétur býst við því að KR sópi seríunni, hann vonar þó að Garðbæingar troði þeirr spá aftur í andlitið á sér.
Hvernig hefur þú melt fyrsta leik KR og Stjörnunnar? Of löng hvíld hjá Stjörnunni eða annað sem þú tókst eftir?
Leikur eitt þróaðist að mestu leiti eins og ég spáði fyrir. Stjarnan komu ferskir í 15 mín en KR liðið er nú þekkt fyrir að pressa stíft varnarlega, hlaupa hratt og þannig þreyta andstæðinginn, sem og gerðist í þessu tilviki. Býst nú fastlega við því að Stjörnumenn hafi nú notað þessa 11 daga til að undirbúa sig vel undir þessa rimmu, svo að ég held að hvíldin hefði bara átt að hjálpa þeim.
Leikur tvö, verður það annar 30 stiga sigur hjá KR og hafa þeir rétt fyrir sér sem töldu að undanúrslitaeinvígi KR og Keflavíkur hefði í raun verið baráttan um Íslandsmeistaratitilinn?
Leikur tvö verður mun jafnari og verður týpískur playoff leikur, gæðin kannski ekki of mikil en spennustigið mjög hátt og harðar varnir. Stjörnumenn ætla að selja sig dýrt í þetta og spái ég þeim dýrvitlausum og verða þeir að nýta sína kost mjög vel því KR liðið er fljótt að refsa.
Held samt ekki að KR – Keflavík hafi verið einhver úrslitaleikur. Stjarnan er algjörlega að toppa á réttum tíma og búnir að spila vel úr sínum spilum. Þeir eiga svo sannarlega skilið að vera í þessu úrslitaeinvígi.
Eitthvað sem KR þyrfti að taka í gegn hjá sér fyrir leik kvöldsins og að sama skapi hvað þurfa Garðbæingar helst að hafa í lagi til að leggja KR?
Held að það segi mikið að KR liðið geti rúllað vel á 10 – 11 mönnum og eru þá allir að skila mikilvægu hlutverki inni á vellinum. Miðað við síðasta leik er lítið hægt að setja út á KR liðið.
Stjarnan þarf reyndar að hægja á leiknum ef þeir ætla sér sigur. Fljót skot eða hraðar sóknir eru ekki það sem þú vilt gera á móti KR því þeir refsa um leið. Stjórna hraðanum og fá meira framlag frá Marvin, Daníel og Kjartani er mjög mikilvægt fyrir Stjörnuna.
Við hverju býst þú af þessu einvígi, sóp, oddaleikur eða eitthvað þar á milli?
Ég ætla að segja að KR sópi þessari seríu. Þeir eru með það sterka leikmenn í mörgum stöðum og eru flestir leikmenn hjá þeim í mjög góðu líkamlegu ástandi. Held samt að Stjarnan gefi þeim hörkuleik í kvöld og vonandi að Garðbæingar troði þessari spá beint í andlitið á mér, körfuboltans vegna.