Í síðasta tölublaði Víkurfrétta sem gefið er út á Suðurnesjum var heilsíðuauglýsing fyrir tvo af heimaleikjum Keflavíkurliðanna. Þar voru allir myndaðir í bak og fyrir að frátöldum tveimur kumpánum sem heita Sigurður Ingimundarson og Einar Einarsson sem stýra karlaliði félagsins.
Eitthvað hefur það greinilega skolast til að fá kappana í myndatöku en því var sýnist okkur bjargað á síðustu stundu og íhlaupamenn þeirra ekki af óþekktari endanum en Beavis og Butthead.
Þeir Beavis og Butthead eru kannski frægastir fyrir afrek sín í teiknimyndum MTV á árunum 1993-1997 og þættirnir voru svo endurlífgaðir í kringum 2011. Hvort þeir félagar hafi nokkurntíman verið tengdir við körfubolta skal ósagt látið.



