Bandarískir atvinnumenn eru eins og áður í stórum hlutverkum í Dominos-deildunum í körfubolta. Ekki er mikilvægi þeirra minna í kvennaboltanum og nú stendur annað bikarúrslitaliðanna frammi fyrir því að þurfa treysta algjörlega á framlög íslenskra leikmanna sinna í úrslitaleik Powerade-bikarsins 2015.
Carmen Tyson-Thomas, bandaríski leikmaðurinn í kvennaliði Keflavíkur, er rifbeinsbrotin og verður ekki með á móti Grindavík á laugardaginn. Keflavíkurliðið hefur þegar spilað tvo leiki án Tyson-Thomas og tapaði án hennar á móti Grindavík í leik þar sem liðið var einnig án fyrirliða síns (Birna Valgarðsdóttir) og leikstjórnanda (Ingunn Embla Kristínardóttir). Báðar eru þær Birna og Ingunn Embla öflugir leikmenn sem styrkja liðið mikið en það er meira en að segja það að fylla í skarð atvinnumannsins.
Carmen Tyson-Thomas er með 26,2 stig og 12,3 fráköst að meðaltali í leik og er annar framlagshæsti leikmaður deildarinnar.
Keflavíkurkonur geta orðið aðeins fjórða liðið á þessari öld (frá 2000) sem tryggir sér bikarmeistaratitilinn án hjálpar erlends leikmanns en allir þessir þrír Kanalausu bikarmeistarar hafa verið kvennalið. Kanalaust karlalið hefur ekki orðið bikarmeistari í heil 26 ár eða síðan Njarðvík vann á alíslensku liði árið 1989.



