spot_img
HomeFréttirVinnustöðvun hafin í NBA – ekkert spilað fyrr en verður samið á...

Vinnustöðvun hafin í NBA – ekkert spilað fyrr en verður samið á ný

Eigendur NBA-liðanna hafa sett vinnustöðvun á leikmenn sína þar til nýr kjarasamningur næst milli liðanna og leikmanna. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir NBA-körfuboltann sem hefur flogið hátt undanfarin ár.
Kl. 04.01 að íslenskum tíma í nótt hófst vinnustöðvunin og er því NBA-deildin einfaldlega á ís. Í tilkynningu sem stjórn deildarinnar sendi út kemur fram afstaða liðanna en þau vilja að algjör breyting verði á samningnum. Liðin telja fyrri samning vera dauðagildru fyrir liðin og þau geti ekki grætt á rekstri liðanna sinna með svona samning. Þau vilja að nýji samningurinn geri rekstur liða sjálfbæran og gefi öllum liðunum tækifæri á að verða meistari, leikmenn fái ríkulega greitt og að liðin ef þau eru vel rekin hagnist á rekstri sínum.
 
Í tilboði liðanna til 10 ára verða meðallaun leikmanna um 5 milljónir dollara sem gætu hækkað með auknum tekjum deildarinnar og numið allt að 7 milljónum árlega.
 
Talsmenn leikmanna segja tilboð eigenda minnka tekjur leikmanna á næstu 10 árum um allt að sjö milljarða dollara miðað við spár um auknar tekjur. Þannig að um gríðarlegar upphæðir er að ræða.
Mörg liðanna hafa verið keypt á undanförnum árum fyrir háar upphæðir frá 250 milljónum upp í 450 milljónir dollara og eru þetta oftast með slakari liðum deildarinnar. Þessir eigendur sem hafa greitt toppverð fyrir lið sín vilja tækifæri til að hagnast og greiða niður skuldir sínar. Þessir eigendur eru tilbúnir að fara ansi langt til að knýja fram nýtt kerfi enda telja þeir ekki vera forsendur til reksturs með álíka samning í gangi. Þau lið sem eru talin græða peninga eru þau sem hafa gengið sem best undanfarin ár. Liðin í slakari kantinum eru að tapa peningum og telja því eigendur samninginn sem var að renna út fátækragildru fyrir slakari liðin.
 
Eigendur vilja koma á föstu launaþaki og stytta samninga. Oft hafa lið gert langa og stóra samninga og svo hefur komið í ljós að leikmenn standa ekki undir laununum. T.a.m. fær Joe Johnson 24.9 milljónir fyrir lokaárið á samning sínum 2013-14. Fast launaþak felur í sér að Larry Bird og mid-level exception ákvæðið detti út ásamt fleir álíka undanþágum frá launaþakinu. Þannig launaþak er í NFL og NHL-deildunum. En þar eru nýbúin að vera vinnustöðvanir og t.a.m. var allt tímabilið 2004-05 í NHL-deildinni fellt niður.
 
M.a. þess sem vinnustöðvun hefur í för með sér er: Leikmenn fá ekki laun, lið mega ekki standa í samningaviðræðum við leikmenn, skipta eða fá nýja leikmenn. Leikmenn mega ekki nota æfinguaðstöðu félaganna til neins og lið verða ekki með neinar æfingar fyrir leikmenn, sumaræfingar, þjálfarafundi, liðsfundi, æfingaleiki eða sumarleiki.
 
T.a.m. er búið að fella niður árlega sumardeild NBA í Las Vegas og engir æfingaleikir í Evrópu eru fyrirhugaðir.
 
Mynd: David Stern og félagar hafa slæma reynslu af vinnustöðvun í NBA og munu knýja eigendur liðanna að gera samning hið fyrsta.
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -