17:30
{mosimage}
(Ingibjörg t.v. og Kara t.h. léku saman upp yngri flokkana í Njarðvík)
Vinkonurnar Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir og Margrét Kara Sturludóttir eiga langa sögu að baki í körfuboltanum en báðar tóku þær sínu fyrstu skref með Njarðvík og léku þar saman upp yngri flokkana. Þó kom að því að þær yfirgáfu herbúðir Njarðvíkinga og hittust að nýju á æfingu með meistaraflokki Keflavík hvar þær síðan unnu til Íslandsmeistaratitils á síðustu leiktíð. Að lokinni síðustu leiktíð hélt Ingibjörg sig áfram í herbúðum meistara Keflavíkur þar sem hún er nú fyrirliði en Margrét Kara söðlaði um og hélt út í nám.
Margrét Kara hélt til Bandaríkjanna en við efnahagshrunið reyndist það henni um megn að dveljast ytra svo hún kom heim og í nokkra daga var töluverð leynd og spenna yfir því með hvaða liði hún myndi leika. Að lokum fór svo að Kara valdi Vesturbæinn og nú mætast þær vinkonur úr Njarðvík í bikarúrslitaleik á sunnudag. Karfan.is ræddi stuttlega við þær Köru og Ingibjörgu sem kváðust spenntar fyrir sunnudeginum og lofuðu því að ekkert yrði gefið eftir þrátt fyrir vinskapinn.
,,Mér líst vel á leikinn og þetta verður slagur,“ sagði Ingibjörg Elva fyrirliði Keflavíkur en Margrét Kara leikmaður KR varð til svara þegar blaðamaður spurði hvort þær hefðu getað ímyndað sér það sem ungar stúlkur í Njarðvík að svona ætti eftir að verða í pottinn búið.
,,Nei, örugglega aldrei en við erum bara spenntar því þetta verður gaman,“ sagði Kara og sagði að það yrði ekki skrýtið að mæta Ingibjörgu og Keflvíkingum á sunnudag.
,,Við höfum spilað svo mikið saman og gegn hvorri annari á félag- og landsliðsæfingum, svo er þetta bara leikur,“ sagði Kara en er leikurinn á sunnudag ekki aðeins meira en bara leikur?
,,Jú reyndar, auðvitað er titill undir núna,“ sagði Kara og Ingibjörg kláraði setninguna… ,,þegar maður er kominn inn á völlinn þá fer bara allt í gang sama hvað hefur gerst áður,“ sagði Ingibjörg en þrátt fyrir að teljast seint elliærar hafa þær báðar leikið tvívegis áður til bikarúrslita.
Hafa Njarðvíkingar ekkert verið að kalla í ykkur um að koma aftur í Ljónagryfjuna og láta að ykkur kveða?
,,Ég hef ekkert hugsað um það en manni þykir alltaf vænt um Njarðvík, ég fæ ekki séð að þær séu á leiðinni upp á næstunni en maður veit aldrei, þær eru með ungt lið,“ sagði Margrét Kara sem kemur af stórri Njarðvíkurætt. Faðir hennar Sturla Örlygsson lék með Njarðvík á sínum tíma sem og bróðir hans Teitur Örlygsson sem stýra mun Stjörnunni gegn KR í bikarúrslitaleik karla á sunnudag.
,,Það getur allt gerst á sunnudag og því er þetta aðeins spurning um hvort liðið vilji vinna þetta meira,“ sagði Ingibjörg um bikarúrslitaleikinn og Kara bætti við: ,,Þetta verður bara ekta bikarleikur,“ en geta þær lofað annarri eins spennu og hefur verið í bikarúrslitaleikjum kvenna síðustu ár?
,,Já já,“ sagði Kara hvergi bangin. ,,Ég held að þetta verði bara hörkuleikur.“
Ingibjörg Elva lék ekki með Keflavík í síðasta deildarleik gegn Haukum sökum smávægilegra meiðsla en hún lætur væntanlega tækifæri eins og bikarúrslitaleik gegn gamla liðsfélaga sínum Margréti Köru ekki fram hjá sér fara.



