spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaVillt og galið í Sandkassanum

Villt og galið í Sandkassanum

Reynismenn með sannfærandi sigur á ÍA í 2. deild karla

Það var boðið upp á alvöru „show-down“ af gamla skólanum í Sandkassanum í Sandgerði í kvöld er heimamenn fengu ÍA í heimsókn í 2. deild karla. Uppskriftin strangheiðarlegur, miskunnarlaus sóknarbolti án allrar eftirsjár og úr varð ágætis skemmtun sem endaði með öruggum sigri heimamanna, 151 -113.

Reynismenn tóku afgerandi forystu í 1. leikhluta þar sem Guðmundur Auðun Gunnarsson sallaði niður 16 stigum fyrir heimamenn, flestum fyrir utan þriggja stiga línuna, auk þess sem hann mataði félaga sína með snotrum sendingum í gegnum hripleka vörn gestanna. Skagamenn buðu uppá einhvers konar pressuvörn langt fram á völlinn sem hélt ekki betur en svo að heimamenn voru iðulega komnir í stöðuna 2 á 1 eftir 1-2 sendingar sem þeir nýttu vel og lagði grunninn að sigrinum í kvöld. Staðan eftir fyrsta leikhluta 47-30.

Gestirnir náðu að klóra örlítið í bakkann í 2. leikhluta sem var jafn hraður og tilviljunarkenndur og 1. leikhlutinn þar sem sendingar yfir allan völlinn glöddu augað þá helst sem og mörg ágætlega útfærð hröð upphlaup heimamanna. Staðan í hálfleik 76 -65 fyrir Reyni.

Skagamaðurinn Ingimundur Orri Jóhansson lét öllum illum látum fyrir ÍA í leiknum. Honum héldu hreinlega engin bönd en það skal þó tekið fram að ekki var mikið um tilraunir til bindinga af hálfu heimamanna sem svöruðu þó hverri körfu gestanna með tveimur til viðbótar. Ingimundur sallaði niður 33 stigum í fyrri hálfleiknum og lauk leik með heil 50 stig, geri aðrir betur.

Heimamenn voru mun sterkari í síðari hálfleiknum þar sem Kumasi Máni Hodge Carr fór fyrir liðinu og lauk leik með 33 stig. Honum næstur var Guðmnundur Auðun Gunnarsson með 26 stig og þá skoruðu þeir Jón Böðvarsson og Kristján Smárason sitt hvor 20 stigin í annars vel samstilltu sóknarframtaki Sandgerðinga.

Hjá gestunum var téður Ingimundur í algjörum sérflokki með 50 stig og honum næstur var reynsluboltinn Chad Franklin með 31 stig.

Reynismenn unnu þar með sinn fyrsta sigur á tímabilinu eftir tap gegn Hrunamönnum á Flúðum í 1. umferð en Skagamenn hafa nú tapað báðum sínum leikjum og fengið á sig 282 stig í þessum fyrstu tveimur leikjum vetrarins. Eins og segir í gamla góða slagaranum þá skoruðu Skagamenn mörkin en ekki hafa heyrst neinar vísur kveðnar um það hvernig Skagamenn héldu „markinu“ hreinu og er nokkuð víst að tilefni til lagasmíða af þeim toga þurfa að bíða betri tíma.

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -