Damon Johnson mun leika með Keflavík b í Poweradebikarkeppninni í næstu umferð keppninnar en þá eigast við Keflavík b og ÍG í 16 liða úrslitum. Karfan.is heyrði í Sævari Sævarssyni varaformanni KKD Keflavíkur sem er í óðaönn við að undirbúa komu Damons sem lendir í Keflavík á fimmtudagsmorgun.
„Damon er hófstilltur þegar kemur að kröfugerð því í fyrstu vildi hann bara fara í Bláa Lónið og á Nonnabita en skyndibitinn er orðinn að lambasteik,“ sagði Sævar léttur á manninn.
Að sögn Sævars vildi Damon einnig komast í jöklaferðir og verður forvitnlegt að sjá hvort kröfunum fari fjölgandi eftir því sem líður á vikuna en Sævar sagði að þegar hann þyrfti að fara að litasortera MogM kúlur þá myndu Keflvíkingar segja hingað og ekki lengra.



