spot_img
HomeFréttirViljinn að vopni í Vodafonehöllinni (Umfjöllun)

Viljinn að vopni í Vodafonehöllinni (Umfjöllun)

22:58
{mosimage}

 

(Sigurkarfan! Molly Peterman gerir hér sigurkörfu Vals í kvöld)

 

Baráttuþrek Valskvenna skilaði þeim góðum eins stigs sigri á margföldum meisturum Hauka í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Sannkallaður spennuslagur fór fram í Vodafonehöllinni þar sem Molly Peterman gerði sigurkörfu leiksins þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka. Lokatölur leiksins voru 80-79 Val í vil og gat sigurinn hæglega fallið öðru hvoru liðinu í skaut. Þær Molly Peterman og Signý Hermannsdóttir voru fyrirferðamiklar í liði Vals í kvöld en saman gerðu þær 50 af 80 stigum Vals í kvöld. Kristrún Sigurjónsdóttir var atkvæðamest í liði Hauka með 22 stig og 11 fráköst.  

Valur gerði fyrstu stig leiksins, 1-0, en þá tóku Haukar völdin og virtust ætla að keyra yfir Val og staðan 18-31 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Kristrún var sjóðheit með 14 stig. Valsliðið náði þó áttum og hægt og bítandi unnu þær sig nær Haukum í öðrum leikhluta. Staðan í leikhléi var 35-42 Haukum í vil en gestirnir áttu oft í vandræðum með svæðisvörn Vals en bæði lið pressuðu mikið í kvöld.  

Molly Peterman var með 10 stig í liði Vals í leikhléi en Kristrún var með 14 þar sem hún skoraði ekki í öðrum leikhluta.  

Klærnar voru brýndar í leikhléi og komu Valskonur grimmar til síðari hálfleiks og tókst þeim að minnka muninn í 41-42 með þriggja stiga körfu frá Peterman. Meistararnir úr Hafnarfirði virtust þó ávallt ráða ferðinni og jafnharðan sem Valur færðist nærri tókst Haukum að auka muninn að nýjul. Báðar þær Signý Hermannsdóttir og Molly Peterman fengu sína þriðju villu í þriðja leikhluta og máttu vara sig. Valur vann þriðja leikhluta 24-20 og staðan því 59-62 fyrir fjórða og síðasta leikhlutanna. 

{mosimage}

Haukar urðu fyrir áfalli þegar bera þurfti Guðbjörgu Sverrisdóttur af leikvelli sökum meiðsla og var hún þar sem eftir lifði leiks aftan við varamannabekk Hauka að kæla á sér hægra hnéð. Það kemur væntanlega í ljós á morgun eða á næstu dögum hver staðan er á Guðbjörgu. 

Í fjórða leikhluta voru Haukar áfram skrefinu á undan en halla tók undan fæti og Val fór að vaxa ásmegin um það leyti þegar Kristinn Óskarsson, annar dómari leiksins, dæmdi tæknivillu á Unni Töru Jónsdóttur. Væntanlega hefur Unnur átt í orðaskiptum við Kristinn en þetta bakslag fyrir Hauka var sem olía á eld Vals. Í kjölfarið komust Valsstúlkur yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni 1-0. Þórunn Bjarnadóttir skoraði þá úr teigskoti og breytti stöðunni í 72-71 þegar rétt rúmar 3 mínútur voru til leiksloka. 

Síðustu þrjár mínútur leiksins voru svo spennuþrungnar þar sem Valur virtist ætla að stinga Hauka af. Guðrún Baldursdóttir kom Val í 75-71 með þriggja stiga körfu en Haukar minnkuðu muninn í 78-76. Þegar hér er komið við sögu eru 24 sekúndur til leiksloka og Þórunn Bjarnadóttir getur komið Val í 80-76 en hún brennir af báðum vítaskotunum. Haukar halda í sókn, Valur brýtur og Haukar setja niður fyrra vítaskotið þar sem þær voru í skotrétt. Síðara vítaskotið geigaði en Kristrún Sigurjónsdóttir náði frákastinu og reyndi skot en Valskonur brutu strax á henni. 

Fyrirliði Hauka reyndist með stáltaugar á vítalínunni og kom Haukum í 78-79 með því að setja bæði vítin niður og 12 sekúndur til leiksloka. Valur tók leikhlé og að því loknum rataði boltinn í fangið á Molly Peterman sem keyrði inn í teig og tók stökk skot sem rataði rétta leið og staðan 80-79.  

Haukar höfðu um 4 sekúndur til að snúa leiknum sér í hag en sá tími reyndist ekki nægur þar sem Haukar voru búnir að fullnýta öll sín leikhlé og skot úr erfiðri stöðu hjá Kieru Hardy sem rataði ekki rétta leið og Valur fagnaði sigri. 

Molly Peterman átti ljómandi góðan leik í liði Vals með 34 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst. Næst henni var Signý Hermannsdóttir með 16 stig, 12 fráköst, 7 varin skot og 5 stoðsendingar. 

Kristrún Sigurjónsdóttir var atkvæðamest í liði Hauka með 22 stig og 11 fráköst en henni næst var Kiera Hardy með 19 stig og 9 stoðsendingar. 

Gangur leiksins:
16-26, 18-31, 28-37, 35-42, 49-51, 59-62, 65-71, 78-73, 80-79 

Tölfræði leiksins 

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -