spot_img
HomeFréttirViljinn að vopni en Ungverjar betri

Viljinn að vopni en Ungverjar betri

Eftir magnaða byrjun íslenska liðsins í Generali Arena hertu Ungverjar skrúfurnar í varnleik sínum og lögðu grunn að sigri á íslenska liðinu í kvöld með 18-0 áhlaupi undir lok fyrsta leikhluta og byrjun þess annars. Lokatölur í Ungverjalandi í kvöld urðu 72-50 Ungverja í vil. Íslenska liðið lét þó deigan aldrei síga, barðist vel allan leikinn og náði að klóra sig nærri gestgjöfunum í fjórða leikhluta en orkan þraut síðustu mínútur leiksins og Ungverjar sigldu öruggum sigri í höfn.

Helena Sverrisdóttir gerði fyrstu körfu Íslands í leiknum og þar með varð hún fyrst íslenskra kvenna til þess að skora 1000 landsliðsstig eða meira. Magnað afrek! Helena lauk leik stigahæst í íslenska liðinu með 16 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Baráttan í íslenska hópnum var til fyrirmyndar en á köflum skorti öryggi í sóknaraðgerðum og stóru leikmenn Ungverja voru íslensku leikmönnum einnig erfiðir og þá sér í lagi hin öfluga Tijana Krivacevic sem skoraði 27 stig fyrir Ungverja í kvöld. 

Skotin voru að rata rétta leið í upphafi leiks og Ísland komst í 7-14 en þá hrukku heimakonur í gang. Það var ljóst að þær ætluðu sér ekki aðeins að nýta sentimetrana í teignum heldur einnig spila afar stíft og það á bakverðina líka. Ungverjar þvinguðu fram nokkrar slæmar sendingar og skoruðu oftar en ekki í bakið á íslenska liðinu á þessum slæma 18-0 kafla í kvöld og þegar honum lauk með teigkörfu frá Pálínu var staðan orðin 25-16. Ungverjar leiddu svo 41-25 í hálfleik eftir að Gunnhildur Gunnarsdóttir setti móralskan þrist fyrir Ísland um leið og fyrri hálfleik lauk. 


(Sandra Lind Þrastardóttir kallar ekki allt ömmu sína og er hér í kröppum dansi)

Einhverjir hefðu getað afskrifað íslenska liðið strax eftir þessa 18-0 dembu Ungverja en íslenski hópurinn lét engan bilbug á sér finna. Reyndar var ljóst snemma í hvað stefndi með þær Bryndísi Guðmundsdóttur og Rögnu Margréti Brynjarsdóttur sem voru nánast í villuvandræðum allan leikinn og svo fór að þær urðu báðar frá að hverfa með fimm villur sem var dýrt.

Sandra Lind Þrastardóttir hljóp myndarlega í skarð Rögnu og Bryndísar en Sandra er með svona innbyggðan baráttugír, það þarf ekki beint að tyggja ofan í þennan unga Keflvíking að berjast en Sandra komst afar vel frá sínu verkefni í kvöld með 9 fráköst og þar af 6 sóknarfráköst! 

Ungverjar leiddu 56-36 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en íslenska liðið lét sér samt ekki segjast og átti flottar rispur í fjórða leikhluta en svo varð tankurinn tómur og Ungverjar luku verkinu 72-50. 

Margt jákvætt í leik íslenska liðsins sem var svo sannarlega með viljann að vopni, baráttan til fyrirmyndar og varnarleikurinn var oft fantagóður en það var helst stöku einbeitingarskortur í sendingum liðsins sem var að trufla okkar konur sem og leikmaður á borð við Krivacevic sem var að öðrum ólöstuðum besti maður leiksins.

Helena Sverrisdóttir var stigahæst í íslenska liðinu í kvöld með 16 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Gunnhildur Gunnarsdóttir var traust og skoraði 12 stig og tók 4 fráköst og þá bætti Pálína Gunnlaugsdóttir við 10 stigum. 

Berglind Gunnarsdóttir og Bergþóra Holton Tómasdóttir léku sinn fyrsta landsleik í kvöld og óskar Karfan.is þeim til hamingju með þann áfanga sem og Helenu Sverrisdóttur með að rjúfa fyrst íslenskra kvenna 1000 stiga múrinn með landsliðinu. 

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Ívar og Bjarni munu nýta reynsluna úr leik kvöldsins til að vinna með liðinu fyrir næsta leik en þá koma Slóvakar í heimsókn til Ísland þann 25. nóvember næstkomandi en Slóvakar lögðu Portúgal 56-43 í hinum leik riðilsins.

Tölfræði leiksins

Myndir/Umfjöllun: [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -