spot_img
HomeFréttirVilborg segist þurfa bera meiri ábyrgð á næsta tímabili með Minot State...

Vilborg segist þurfa bera meiri ábyrgð á næsta tímabili með Minot State “Stólað á mig til þess að leiða liðið”

Njarðvíkingurinn Vilborg Jónsdóttir gekk síðastliðið haust til liðs við Minot Beavers í bandaríska háskólaboltanum eftir gott tímabil með grænum í Subway deild kvenna, þar sem hún meðal annars var lykilleikmaður liðsins í fyrsta Íslandsmeistaratitil þeirra í tíu ár. Í 33 leikjum með Íslandsmeisturum Njarðvíkur á 2021-22 tímabilinu var hún nánast alltaf í byrjunarliðinu og lék að meðaltali tæpar 30 mínútur í leik.

Íslandsmeistarar Njarðvíkur 2021-22

Vilborg er tvítug frá því í janúar, en eftir að hafa leikið upp alla yngri flokka Njarðvíkur hóf hún að leika með meistaraflokki þeirra aðeins 15 ára gömul tímabilið 2018-19. Þá hefur hún einnig verið mikilvægur hluti í öllum yngri landsliðum Íslands og var á síðasta ári komin í a landsliðið, þar sem hún hefur leikið tvo leiki.

Í leik fyrir Ísland

Minot State er staðsett í Minot í Norður Dakóta ríki Bandaríkjanna og leikur í annarri deild bandaríska háskólaboltans, nánar tiltekið í Northern Sun deildinni. Fyrsta tímabili Vilborgar með skólanum er nú lokið og vann liðið 12 leiki en tapaði 16. Þá náði hún strax á fyrsta ári sínu að spila stórt hlutverk innan liðsins, þar sem hún byrjaði næstum alla leiki og lék næst mest allra leikmanna að meðaltali.

Karfan hafði samband við Vilborgu og spurði hana aðeins út í þetta fyrsta ár með Minot, hvernig stemningin sé í Norður Dakóta og hvað hún hyggist gera í framhaldinu.

Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?

“Það er geggjað að vera komin af stað, alltaf verið partur af planinu að prófa þetta og upplifa uppáhalds íþróttina mína í Bandaríkjunum.”

Hvernig er stemningin í Norður Dakótu?

“Stemmningin í ND er mjög góð. Í Minot sérstaklega, þar eru allir mjög viðkunnalegir. Ég myndi segja að Minot sé svolítið svipað Njarðvík og Keflavík að því leytinu til að það þekkja allir alla að einhverju leyti og til dæmis, mikið af fólkinu sem kemur að horfa á leikina okkar, vinnur einhvers staðar í bænum og þekkir mann svo út frá því.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?

“Körfuboltinn er mjög ólíkur myndi ég segja. Hann er hraðari og mun agaðri. Varnarlega eru reglurnar öðruvísi og mun minni contact leyfður fyrir varnarmann eins og mig sem elskar að pressa fullan völl. Aftur á móti er leyfður miklu meiri contact inní teig heldur en heima. Ég er ennþá að venjast sumum reglum eftir heilt tímabil.”

Hvernig gekk þér á tímabilinu?

“Mér gekk mjög vel þetta tímabil. Komst í byrjunarliðið eftir pre-season og byrjaði 90% af leikjunum okkar. Spilaði 30 mínutur að meðaltali og leiddi liðið í stoðsendingum. Við sem lið vorum einum sigurleik frá því að komast í NSIC úrslitakeppninna sem var högg en við stefnum á að komast þangað og lengra næsta tímabil.”

Nú ferðu út eftir að hafa verið lykilleikmaður í Íslandsmeistaraliði Njarðvíkur, var ekkert erfitt að fara út og bæði treysta á að þú næðir að halda áfram að bæta þig, sem og fá ekki tækifæri til að verja titilinn?

“Það voru mjög blendnar tilfinningar að fara út eftir að hafa unnið titilinn. Manni langar náttúrulega alltaf að verja titillinn og sérstaklega eftir að við unnum hann sem “rookies”. En ég var samt mjög sátt við að fara út. Mitt markmið með því að fara út var að bæta minn eigin leik og tileinka mér þekkingu og reynslu nýrra þjálfara. Heima hafði ég ákveðið hlutverk en hér hef ég fengið frelsi til að gera mun meira sem leikmaður.”

Fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast fyrir Íslandsmeistarana?

“Þær eru búnar að standa sig mjög vel, gaman að horfa á liðið sem maður var partur af og gaman að horfa á sumar af bestu vinkonum sínum spila. Þær munu þjappa sér saman þegar playoffs byrjar og verja þennan titil 100% segi ég!”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Já, planið er að fara aftur út um miðjan ágúst”

Hver eru markmið þín fyrir næsta tímabil?

“Næsta tímabil verður meira stólað á mig til þess að leiða liðið, skora og halda áfram að spila góða vörn. Þjálfarinn hefur sett mér skýr fyrirmæli um til hvers er ætlast af mér og ég mun gera mitt besta að uppfylla þau fyrirmæli alltaf.”

Fréttir
- Auglýsing -