spot_img
HomeFréttirVikan í háskólaboltanum - Gunnar Ólafsson stigahæstur í tapleik

Vikan í háskólaboltanum – Gunnar Ólafsson stigahæstur í tapleik

Tímabilið í háskólaboltanum hófst í Bandaríkjunum fyrir stuttu með miklum fjölda leikja. Íslendingar hafa aldrei átt fleiri leikmenn sem spila þar eins og núna og því tilvalið að skoða hvernig tímabilið fór af stað fyrir okkar fólk: 

 

 

Kristófer Acox og félagar í Furman Paladins áttu góða viku er liðið vann báða sína leiki. Fyrst unnu þeir Liberty með sex stigum og var Kristófer með 7 stig og 5 fráköst. Nú um helgina vann liðið svo Furman Gardner-Webb með þremur stigum, þar var Kristófer í stóru hlutverki og skilaði 18 stigum og 7 fráköstum. 

 

Kári Jónsson tapaði sínum eina leik um helgina gegn Saint Josephs skólanum. Kári er kominn í byrjunarlið skólans en fann ekki skotið sitt í þessum leik þar sem hann endaði með fjögur stig og hitti illa. Við þetta bætti hann við fjórum fráköstum og þremur stoðsendingum.

 

Marist tapaði báðum sínum leikjum í vikunni en Kristinn Pálsson leikur fyrir karlalið skólans. Hann lék 14 mínútur og var stigalaus í leiknum gegn Albany. Í stærra tapi gegn Jacksonville lék hann þó meira og var með 3 stig og 4 fráköst.

 

Lovísa Björt Henningsdóttir lék með kvennaliði Marist sem vann góðan sigur á Boston University þar sem hún var með 13 stig og 5 fráköst. Einnig var Lovísa tilnefnd til tilþrifa vikunnar hjá Marist háskólanum. 

 

Belmont Abbey með Gunnar Harðarson innanborð áttu góða viku þar sem báðir leikir liðsins unnust. Gunnar er lykilmaður í liðinu og byrjaði báða leikina. Í þeim fyrri var hann með átta stig en í seinni leiknum var hann með 11 stig, 2 fráköst og 2 stolna bolta. 

 

Tveir íslendingar leika með Cansius háskólanum þær Sara Rún Hinriksdóttir og Margrét Rósa Hálfdánardóttir. Sara var besti leikmaður Cansius í tapi gegn Buffalo en hún var með 12 stig og 4 fráköst en Margrét bætti við tveimur stigum og fjórum stoðsendingum. Seinni leikurinn var stórt tap gegn Ohio háskólanum þar sem Sara var með 14 stig en Margrét Rósa með 10 stig og fjórar stoðsendingar. Báðar eru þær í byrjunarliði skólans og leika virkilega stórt hlutverk. 

 

Hildur Björg Kjartansdóttir leikur með UT Rio Grande sem tapaði einnig báðum leikjum vikunnar. Í þeim fyrri var Hildur algjör yfirburðarleikmaður hjá UT í stóru tapi þar sem hún var með 15 stig og 8 fráköst. Í seinni leiknum átti Hildur erfitt uppdráttar með 2 stig og 5 fráköst en hún hitti illa í leiknum. 

 

Elvar Friðriksson heldur áfram að sýna styrk sinn með Barry háskólanum þar sem hann hefur verið ógnarsterkur. Hann fór fyrir sínu liði í sigri á suður Florida háskólanum þar sem Elvar var með 19 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar. 

 

Jón Axel Guðmundsson lék einn leik í vikunni með Davidson og það gegn fyrrum liði Jordan Norður Karólínu skólanum. Jón Axel var að vanda í byrjunarliði Davidson sem tapaði leiknum en hann var með 10 stig og 6 fráköst. 

 

St. Francis skólinn í Brooklyn lék tvo leiki í vikunni þar sem Gunnar Ólafsson var eins og áður í byrjunarliðinu. Hann átti ekki sinn besta leik er liðið vann Mount Saint þar sem hann var með 1 stig og 4 fráköst. Aftur á móti var hann stigahæstur í tapleik gegn Canisius. Þar var hann með 22 stig, 5 fráköst og hitti þar af sex þriggja stiga skotum í leiknum. 

 

Mynd – Gogriffs.com 

Fréttir
- Auglýsing -