spot_img
HomeFréttirVika til stefnu - Stjarnan aldrei unnið KR heima í deild!

Vika til stefnu – Stjarnan aldrei unnið KR heima í deild!

Í dag er ein vika eftir af deildarkeppni Domino´s-deildar karla. Nítján umferðum er lokið, þrjár eru eftir, KR er deildarmeistari og þrjú lið eru að berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni. Aðrir eru í mauksoðnum hrærigraut og á skálarbarminum er Tindastóll í 2. sæti með 28 stig og Snæfell í 9. sæti með 16 stig.
 
 
Til að krydda þetta allt saman eru þrír leikir á dagskránni hjá hverju liði á einni viku, allt annað álag og gírskipting í anda úrslitakeppninnar fyrir alla sem hafa hingað til verið með um það bil einn leik á viku allt tímabilið.
 
Í kvöld eru fimm leikir í Domino´s deild karla og allir kl. 19:15.
 
Stjarnan – KR
Skallagrímur – Njarðvík
Haukar – ÍR
Snæfell – Tindastóll
Grindavík – Keflavík
 
Skoðum aðeins betur hvað er í boði með kvöldinu:
 
Stjarnan – KR
KR án Pavels, verður Tómas glerhæll Hilmarsson með Stjörnunni í kvöld og hvað með Jón Orra? KR er deildarmeistari og þurfa því ekki að „tjúna“ sig inn á einhverja stigasöfnun í kvöld en eins og gefur að skilja eiga röndóttir harma að hefna og þeim virðist ekkert hafa liðið illa í Garðabænum því KR hefur aldrei tapað deildarleik gegn Stjörnunni í Garðabæ! Stjarnan hefur aðeins unnið KR á heimavelli í úrslitakeppni. Verður þetta fyrsti deildarsigur á heimavelli gegn KR hjá Stjörnunni í kvöld eða verður það enn einn röndóttur sigurinn í Ásgarði?
 
Skallagrímur – Njarðvík
Verður Páll Axel með í kvöld? Þegar stórt er spurt… Paxel með aðeins 10 leiki á bakinu þetta tímabilið fyrir Skallana og þar liggja 12,5 stig og 5,2 fráköst að meðaltali í leik og að jafnaði 43,6% þriggjastiga nýting! Kallinn verður trekktur í gang ef svo ber undir því Sköllunum dugir fátt annað en fullt hús stiga í næstu þremur leikjum. Njarðvík vann fyrri viðureign liðanna og þeir eiga sjálfir í harðri baráttu um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Fullt Fjós í kvöld er næsta öruggt.
 
Haukar – ÍR
Í harðri baráttu um stigin hefðu ÍR-ingar eflaust viljað mæta einhverjum öðrum en heitasta liði deildarinnar, og það á útivelli. Haukar munu mæta með læti því í dag er 2. sætið enn í boði. Haukar geta enn náð 2. sæti af Tindastól og liðin eiga eftir að mætast en inn í þá rimmu koma Haukar með burst frá Schenkerhöllinni. Til að taka 2. sætið af Tindastól hinsvegar þurfa Haukar að vinna rest og vinna m.a. í Síkinu…sem aðeins Grindavík hefur tekist þetta tímabilið. Hvað ÍR varðar er stórri spurningu ósvarað, verður Matthías Orri með eða er ökklinn enn að stríða honum? Með 10 stig í 10. sæti og úrslitakeppnin úr sjónmáli hefur ÍR að einu að keppa, halda Fjölni og Skallagrím fyrir neðan sig!
 
Snæfell – Tindastóll
Skítakuldi í Hólminum þessi dægrin, Snæfell hefur tapað fimm deildarleikjum í röð og sem stendur er liðið utan úrslitakeppninnar. Ef þetta verður lokastaðan er það í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem Snæfell nær ekki inn í úrslitakeppnina! Stólarnir aftur á móti eru komnir inn í úrslitakeppnina í fyrsa sinn síðan árið 2010. Fimm ára bið er á enda! Nýliðarnir hafa ekki efni á því að sofna á verðinum og hleypa von í Hauka um 2. sætið í deildinni svo Hólmurinn ætti að heilla í kvöld með rándýrum leik.
 
Grindavík – Keflavík
Grindavík á það kannski sammerkt með Haukum þessi dægrin að þetta eru tvö heitustu lið deildarinnar! Keflvíkingar eru sem stendur inni í úrslitakeppninni en tvö stig í kvöld myndi hjálpa þeim gríðarlega í baráttunni gegn Snæfell um topp-8 sæti. Útivöllurinn hefur verið Keflvíkingum illur viðureignar og þeir tapað sex útileikjum í röð og pappírarnir segja þessvegna að það sé brekka framundan hjá þeim í kvöld.
 
Svona lítur leikjadagskráin út það sem eftir lifir deildarkeppninnar í Domino´s deild karla
 
05-03-2015 19:15 Stjarnan   KR Ásgarður  
05-03-2015 19:15 Skallagrímur   Njarðvík Borgarnes  
05-03-2015 19:15 Haukar   ÍR Schenkerhöllin  
05-03-2015 19:15 Snæfell   Tindastóll Stykkishólmur  
05-03-2015 19:15 Grindavík   Keflavík Grindavík  
06-03-2015 19:15 Fjölnir   Þór Þ. Dalhús  
08-03-2015 19:15 Tindastóll   Haukar Sauðárkrókur  
08-03-2015 19:15 KR   Þór Þ. DHL-höllin  
08-03-2015 19:15 Grindavík   Fjölnir Grindavík  
09-03-2015 19:15
Fréttir
- Auglýsing -