spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaVigurbolinn leggur skóna á hilluna eftir 30 tímabil á Íslandsmótinu

Vigurbolinn leggur skóna á hilluna eftir 30 tímabil á Íslandsmótinu

Baldur Ingi Jónasson, oft kallaður Vigurbolinn, hefur lagt skóna á hilluna frægu eftir að hafa leikið heil 30 tímabil á Íslandsmótinu í körfubolta. Baldur var landsþekktur fyrir hittni sína utan þriggja stiga línunnar en árið 1997 stóð hann uppi sem sigurvegari í þriggja stiga keppni stjörnuleiks KKÍ.

Baldur hóf ferilinn með Ungmennafélagið Bolungarvíkur tímabilið 1989-1990 í 1. deildinni. Lengst af spilaði hann með KFÍ en hann var í silfurliði þess í Bikarkeppni KKÍ árið 1998 og vann 1. deildina með félaginu 1996 og 2003. Alls lék hann 192 leiki á 9 tímabilum í efstu deild karla með KFÍ og Þór Akureyri og skoraði í þeim 1616 stig.

Síðast lék hann með liði Vestra-b í 3. deildinni en í janúar varð hann fyrir því óláni að slíta hásin í leik á móti Hrunamönnum og lauk þar með hans þrítugasta tímabili á Íslandsmótinu. Þess má geta að í sjö deildar- og bikarleikjum á tímabilinu setti hann niður 31 þriggja stiga körfu en aðeins eina tveggja stiga körfu, mögulega eftir að hafa stigið á línuna.

Auk fyrrnefndra liða lék Baldur einnig með Ármanni, Laugdælum og ÍKÍ á ferlinum en með þeim öllum stóð hann uppi sem sigurvegari í 2. deild karla.

Baldur Ingi með Ingólfi Þorleifssyni, formanni Kkd. Vestra.

Þrátt fyrir að segja staðar numið sem leikmaður er Baldur ekki hættur afskiptum af körfubolta því hann er genginn til liðs við þjálfarateymi Körfuknattleiksdeildar Vestra og mun hann m.a. sinna þáttum sem lúta að hugarþjálfun, sjálfsstyrkingu og þróun leikmanna meistaraflokks karla en Baldur er með meistaragráðu í félags og vinnusálfræði ásamt því að vera menntaður íþróttakennari. Auk þess mun hann jafnframt liðsinna yngri flokkum deildarinnar með ráðgjöf og fyrirlestrum um hugarþjálfun fyrir þjálfara deildarinnar og iðkendur eldri æfingahópa.

Baldur er ekki ókunnugur þjálfarahlutverkinu en hann hefur þjálfað meistaraflokka hjá KFÍ, Þór Akureyri og Stjörnunni.

Fréttir
- Auglýsing -